Ríkið selji kirkju sem það á ekki

Hrafnseyrarkirkja.
Hrafnseyrarkirkja. Ljósmynd/Af vef Þingeyrar

Ríkissjóður á ekkert í Hrafnseyrarkirkju, „hvorki spýtu né nagla,“ líkt og segir í tilkynningu sem núverandi og fyrrverandi sóknarnefndarformenn Hrafnseyrarsöfnuðar, þeir Hreinn Þórðarson og Hallgrímur Sveinsson, sendu frá sér í dag en tilefnið eru tillögur Viðskiptaráðs um sölu á 200 þúsund fermetrum af húsnæði.

Ganga tillögur Viðskiptaráðs m.a. út á sölu á 22 kirkjum, þar á meðal Hrafnseyrarkirkju, og segja sóknarnefndarformennirnir núverandi og fyrrverandi tillögu Viðskiptaráðs um að ríkið selji kirkju sem það eigi ekkert í vera „brandara dagsins“.

Frétt mbl.is: Ríkissjóður selji 22 kirkjur

„Þetta verður að kalla brandara dagsins, því ríkissjóðurinn okkar á ekkert í Hrafnseyrarkirkju og hefur aldrei átt. Hvorki spýtu né nagla,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur fram að 20. nóvember 1910 hafi séra Böðvar Bjarnason, sóknarprestur og kirkjuhaldari á Hrafnseyri, afhent Hrafnseyrarsöfnuði kirkjuna til eignar og varðveislu.

Frétt mbl.is: Ákveðnar kirkjur safngripir

„Frá þessu segir hann í bók sinni um Hrafnseyri (Menningarsjóður 1961). Hefur söfnuðurinn síðan séð alfarið um kirkju sína og kirkjugarð sjálfur og gerir enn þótt fámennur sé. Þess er þó skylt að geta, að meðan sú ágæta Hrafnseyrarnefnd var og hét, lagði hún stundum hönd á plóg með sóknarnefnd viðvíkjandi viðhaldi kirkju og garðs. Þetta þykir okkur rétt að komi fram hvað sem öðru líður,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert