Íslenskum landsliðsmanni í taekwondo var í dag meinað að fljúga til Bandaríkjanna vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta um tímabundið bann við ferðalögum fólks frá Sýrlandi, Írak, Íran, Jemen, Líbýu, Sómalíu og Súdan.
Frétt mbl.is: Fær ekki að fara til Bandaríkjanna
Meisam Rafiei er íslenskur ríkisborgari en hann fæddist í Íran og er einnig með ríkisborgararétt þar í landi. Meisam hefur margsinnis keppt á stórmótum í taekwondo fyrir hönd Íslands, meðal annars á heims- og Evrópumeistaramótum. Meisam varð meðal annars Norðurlandameistari árið 2016 og heimsmeistari unglinga árið 2002.
Frétt mbl.is: Meisam Evrópumeistari fyrir hönd HR
Í samtali við mbl.is segir Meisam að hann hafi ákveðið að fara á US Open-mótið í taekwondo ásamt öðrum íslenskum keppendum.
„Hluti af liðinu fór fyrr en við vorum þrjú sem áttum miða í dag. Ég bókaði flugið og fleira áður en þessi tilskipun varð að veruleika. Fyrir viku síðan gerist þetta svo og að sjálfsögðu var ég stressaður yfir því, ég vissi alveg að þetta myndi hafa áhrif á mig út af bakgrunni mínum.“
Formaður Taekwondosambands Íslands hafði samband við bandaríska sendiráðið á Íslandi fyrir hönd Meisams og spurðist fyrir um hvort tilskipunin gæti haft áhrif á ferðalagið. Að sögn Meisam fékk hann þau svör að Meisam væri frjálst að fljúga til Bandaríkjanna en að honum gæti verið meinaður aðgangur og hann jafnvel handtekinn við komuna. Því var honum ráðlagt að láta ekki verða af ferðinni.
Frétt mbl.is: Meisam fékk silfur á Evrópuleikunum
Formaður sambandsins hélt þó áfram að athuga stöðuna og reyna að tryggja að Meisam kæmist leiðar sinnar til Las Vegas þar sem mótið fer fram.
„Þegar vinir mínir voru að fara út á flugvöll varð ég mjög leiður. Ég ákvað að láta bara verða af þessu. Hvers vegna ekki? Ég er búinn að vera að undirbúa mig fyrir þetta mót.“
Við innritun á Keflavíkurflugvelli ákváðu starfsmenn WOW air að athuga hvort Meisam fengi að fara inn í Bandaríkin. Í ljós kom að vegna þess að Meisam er með íslenskt vegabréf væri það hægt. Meisam fékk því brottfararspjald í hendurnar og bæði starfsfólk WOW air og hann sjálfur voru ánægð með niðurstöðuna.
„Ég var mjög glaður með þetta. Svo fórum við um borð í flugvélina og vorum sest niður. Það var fullt af fólki í vélinni og svo kemur starfsmaður og biður um að sjá vegabréfið mitt. Þá var mér sagt að ég mætti ekki fara og ég beðinn um að fara úr vélinni,“ segir Meisam.
Í millitíðinni höfðu bandarísk yfirvöld haft samband við WOW air og sagt að ekki væri heimilt að flytja umræddan farþega til landsins. Meisam þótti leiðinlegt að vera beðinn um að fara frá borði fyrir framan aðra farþega, enda liti það út eins og hann hefði gert eitthvað af sér.
„Ég var mjög reiður og mér leið illa að vera tekinn frá borði fyrir framan alla. Fólk hélt kannski að ég hefði gert eitthvað slæmt en ég ætlaði bara að keppa í íþróttum.“