Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur borist ábending um fyrirhugaða Bandaríkjaferð Íslendings sem hefur tvöfalt ríkisfang, sem gæti fallið undir tilskipun Bandaríkjaforseta sem beinast gegn flóttafólki og ríkisborgurum nokkurra ríkja.
Þetta kemur fram í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is hvort einhverjir búsettir á Íslandi hefðu lent í vandræðum vegna tilskipunar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Bandaríski alríkisdómarinn Ann Donnelly frestaði brottvísunum flóttafólks á laugardag í kjölfar tilskipunarinnar sem Trump undirritaði á föstudag. Samkvæmt henni munu Bandaríkin ekki taka á móti flóttafólki næstu 120 daga. Þá munu ríkisborgarar frá sjö ríkjum, þar sem múslimar eru í meirihluta, ekki fá bandaríska vegabréfsáritun næstu þrjá mánuði. Um er að ræða Sýrland, Súdan, Sómalíu, Líbýú, Íran, Írak og Jemen.
Utanríkisráðuneytið er að afla upplýsinga um framkvæmd tilskipunarinnar og hvort umræddum einstaklingi kunni að verða vísað frá Bandaríkjunum. Eins og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur bent á þá eru Íslendingar með tvöfalt ríkisfang frá þessum ríkjum og kunna hugsanlega að vera að fara til Bandríkjanna.
Sómalía er eitt landanna sjö og ólympíumeistarinn Mo Farrah var í gær óviss um hvort hann gæti snúið aftur til Bandaríkjanna, þar sem hann býr. Farrah, sem er fjórfaldur ólympíumeistari í landhlaupum, er með tvöfaldan ríkisborgararétt, breskan og sómalskan, en hann er fæddur í Sómalíu.
Bresk stjórnvöld hafa haft samband við Farrah og tjáð honum að ferðabannið eigi ekki við um íþróttamanninn sem var aðlaður af bresku drottningunni á nýársdag fyrir framlag hans til breskra íþrótta.
Farah segir stefnu Donalds Trump forseta ruglingslega og að hún mismuni fólki. En næstu 90 daga mega þeir sem eru með ríkisborgararétt í Íran, Írak, Lýbíu, Sómalíu, Sýrlandi, Súdan og Jemen ekki koma til Bandaríkjanna.