Karl og kona voru fyrr í þessum mánuði sakfelld fyrir hatursorðræðu í Héraðsdómi Reykjaness vegna ummæla um múslima. Frá þessu er greint á fréttavef Ríkisútvarpsins.
Karlmaðurinn var dæmdur til að greiða 100 þúsund krónur í sekt vegna ummæla um Salmann Tamimi, formann Félags múslima á Íslandi, í athugasemdakerfi fréttavefjarins Vísir.is. Sagði hann þar meðal annars að aflífa ætti Salmann eins og svín og hafði uppi stór orð um íslamska trú. Maðurinn hafnaði því að hafa ætlað að viðhafa hótun með orðum sínum.
Frétt mbl.is: Máli Péturs á Útvarpi Sögu vísað frá
Konan hvatti fólk til þess að fá sér byssuleyfi og fara vopnað keðjum og rörbútum ef það færi í bæinn. Sjálf hikaði hún ekki við að nota slíkt ef hún þyrfti á því að halda. Svo mikið hataði hún og fyrirliti múslima. Konan játaði sök og var gert að greiða 60 þúsund króna sekt.
Héraðsdómur Reykjaness vísaði til þess að þar sem hugtakið hatursorðræða kæmi ekki fyrir í refsiákvæðinu sem vísað væri til yrði að meta ummælin út frá öðru, meðal annars tilmælum ráðherraráðs Evrópuráðsins frá í október 1997 um hatursorðræðu sem ekki nyti verndar stjórnarskrárákvæða um tjáningarfrelsi.