Verða ekki yfirheyrðir í dag

Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita. Lögreglan segist hafa ákveðna …
Birna Brjánsdóttir fannst látin við Selvogsvita. Lögreglan segist hafa ákveðna hugmynd um hvar henni var komið í sjóinn. mbl.is/Hallur Már

Karlmennirnir tveir sem eru í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana verða ekki yfirheyrðir í dag. Lögreglan telur sig nú vita hvernig Birnu var ráðinn bani.

Foreldrar Birnu sögðu frá því á Facebook í gær að útför hennar fari fram í Hallgrímskirkju á föstudaginn kl. 15.00. Þeir afþakka vinsamlega blóm og kransa en benda fólki á að styrkja Landsbjörg þess í stað.

Gæsluvarðhald rennur út á fimmtudag

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir að hugsanlega verði tvímenningarnir yfirheyrðir á morgun. Gæsluvarðhald yfir þeim rennur út á hádegi á fimmtudag, 2. febrúar. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á lengra varðhald.

Grímur segir að lögreglan hafi nú ákveðnar hugmyndir um hvar Birnu var komið í sjóinn. Hún fannst látin við Selvogsvita fyrir rúmri viku, átta sólarhringum eftir að hún hvarf. Tilgáta lögreglu er byggð á ráðgjöf frá sérfræðingum í hafstraumum og ölduhreyfingum. Grímur segir að engin endanleg niðurstaða sé þó komin í þá rannsókn. 

Enn hefur ekki tekist að kortleggja ferðir rauða bílsins milli kl. 7 og 11.30 að morgni laugardagsins 14. janúar. „Það er áfram verið að skoða myndefni sem við höfum aflað okkur,“ segir Grímur. Ákveðin forgangsröðun sé notuð og enn sé verið að vinna niður þann lista.

Endanleg skýrsla réttarmeinafræðings er væntanleg í dag í fyrsta lagi. Í augnablikinu liggur því aðeins fyrir bráðabirgðaniðurstaða krufningarinnar. Samkvæmt henni telur lögreglan sig nú vita hvernig Birnu var ráðinn bani. Hún vill ekki tjá sig frekar um dánarorsökina.

Engar frekari niðurstöður úr lífsýnarannsóknum, m.a. á fatnaði sakborninganna, liggja fyrir.

Fíkniefnamálið svo gott sem upplýst

Um 20 kíló af hassi fundust við leit í togaranum Polar Nanoq er hann kom aftur til hafnar á Íslandi 18. janúar. Rannsókn á því máli er vel á veg komin að sögn Gríms. Málið megi teljast svo gott sem upplýst. 

Í frétt Vísis í morgun kemur fram að grænlensk kona, sem kærði annan sakborninginn fyrir nokkru fyrir kynferðisbrot, hafi verið hvött til að kæra aftur. Málið fór aldrei fyrir dóm á sínum tíma. Konan segist ekki ætla að að verða við því að svo stöddu. Í frétt Stundarinnar í síðustu viku kom fram að sami maður hefði verið dæmdur fyrir fíkniefnabrot. 

Grímur vill ekkert tjá sig um þetta eða staðfesta að mennirnir hafi áður komist í kast við lögin í heimalandi sínu eða í Danmörku. „Í svona rannsókn þá aflar maður upplýsinga um brotaferil ef hann er einhver,“ segir Grímur. „Hins vegar höfum við ekkert viljað fara út í það í fjölmiðlum hvað hafi komið út úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert