Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fordæmir lokanir landamæra og brot á ferðafrelsi gagnvart sérstökum trúarhópum frá tilteknum löndum. Þingflokkurinn hvetur íslensk stjórnvöld til að koma andmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta skýrt á framfæri.
Kemur þetta fram í tilkynningu frá þingflokknum. Eins og áður hefur komið fram munu Bandaríkin ekki taka á móti flóttafólki næstu 120 eftir tilskipun Donald Trump, Bandaríkjaforseta, frá því á föstudag. Auk þess munu ríkisborgarar frá sjö ríkjum, þar sem múslimar eru í meirihluta, ekki fá bandaríska vegabréfsáritun næstu þrjá mánuði.
„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir hvers kyns lokun landamæra og brot á ferðafrelsi gagnvart sérstökum trúarhópum frá tilteknum löndum og gagnvart flóttafólki frá Sýrlandi, líkt og forsetatilskipun Bandaríkjaforseta frá því á föstudag felur í sér. Þingflokkur VG hvetur íslensk stjórnvöld til að koma andmælum við ákvörðun Bandaríkjaforseta skýrt á framfæri við bandarísk stjórnvöld með formlegum hætti og halda með því á lofti grundvallarvirðingu fyrir frelsi, lýðræði og mannréttindum,“ segir í yfirlýsingu VG.