„Þessi bið er mjög erfið fyrir mig. Ég fer ekki út úr húsi. Sænsk yfirvöld hafa ákveðið að senda mig aftur til Nígeríu. Ég hræðist það mjög,“ segir Eze Okafor sem sótti um hæli á Íslandi en var sendur til Svíþjóðar á síðasta ári á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Eze vill ekki gefa sig fram við sænsk yfirvöld af ótta við að vera sendur aftur til heimalandsins. Hann er upp á náð og miskunn annarra kominn og hefur m.a. dvalið hjá Íslendingum í Svíþjóð á meðan hann bíður ákvörðunar Útlendingastofnunar. Sú ákvörðun átti að liggja fyrir í janúar. Nú er sá mánuður svo gott sem liðinn og enn bíður Eze milli vonar og ótta.
Frétt mbl.is: Örlög Eze ráðast brátt
Eze hefur sótt um dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum en hann flúði ofbeldi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í Nígeríu fyrir nokkrum árum. Hann sótti upprunalega um hæli í Svíþjóð en var synjað. Hann kom svo til Íslands í apríl 2012 og sótti um hæli. En umsókn hans var ekki tekin til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá ákvörðun kærði hann til innanríkisráðuneytisins sem svo staðfesti hana í apríl árið 2014. Ákveðið var að bera þá niðurstöðu undir héraðsdóm sem í febrúar 2015 sýknaði Útlendingastofnun og ríkið af kröfum Eze sem byggðu m.a. á því að sex mánaða frestur stjórnvalda til endursendingar væri liðinn.
Dómnum var áfrýjað til Hæstaréttar en ákveðið var að fella málið niður í kjölfar þess að dómar um sambærileg mál féllu haustið 2015 og eyddu þeirri réttaróvissu sem hafði verið uppi um þennan þátt málsins.
Fyrir rúmlega ári sótti svo Eze um dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Honum var ekki leyft að dvelja hér á landi á meðan málið væri tekið fyrir og var hann sendur til Svíþjóðar í maí í fyrra.
Á meðan dvöl Eze hér á landi stóð hafði hann fengið vinnu, gat séð fyrir sér, eignaðist vini og kærustu. Tæplega fimm ár eru nú liðin frá því að hann kom fyrst til Íslands.
Og enn bíður Eze.
Þessi langa bið hefur tekið verulega á hann andlega. „Ég læt lítið fyrir mér fara og bíð alla daga eftir niðurstöðu Útlendingastofnunar,“ segir Eze. Mesta gleðin felst í því að heyra í kærustunni á Íslandi daglega. Þaðan sækir Eze mikinn stuðning. „Við erum öll að vona að Útlendingastofnun komist að jákvæðri niðurstöðu svo ég geti fengið frelsið aftur og hitt kærustuna mína.“