Fyrirhuga hvorki lög né aðgerðir

Lilja Alfreðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Samsett mynd

Það er mjög alvarlegt ef þingmenn vilja að stjórnmálamenn séu að senda skýr skilaboð inn í yfirstandandi kjaradeilur. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Tilefnið var fyrirspurn Lilju Alfreðsdóttur, formanns Framsóknarflokksins, sem spurði ráðherra hvort ráðuneyti hans hefði metið hversu lengi verkfallsaðgerðir sjómanna gætu staðið yfir án þess að valda verulegum skaða, hver skaðinn gæti orðið, hvort ráðuneytið hygðist grípa til aðgerða til að liðka fyrir kjaraviðræðunum og hvort verið væri að skoða mótvægisaðgerðir í þeim byggðarlögum sem ættu mest undir.

Þorgerður sagðist deila áhyggjum Lilju af þeim víðtæku áhrifum sem sjómannaverkfallið hefði á íslenskt samfélag og íslenskt atvinnulíf. Ekki aðeins fyrir fiskiskipin og fiskvinnsluna, heldur einnig afleidd störf sem hefðu skapast gegnum nýsköpun og nýja markaði.

Hún sagði að áhrifin á sveitarfélögin hefðu ekki verið metin en það stæði til og þyrfti að gerast í samráði við önnur ráðuneyti og sveitarfélögin sjálf.

Þorgerður sagði ekki koma til greina að grípa inn í kjaradeiluna með sértækum aðgerðum né stæði til að grípa til lagasetningar. Ríkisvaldið ætti að senda þau skilaboð til deiluaðila að axla ábyrgð en inngrip þess heyrðu fortíðinni til.

Lilja sagði vonbrigði að ráðuneytið væri ekki komið lengra í að meta áhrif verkfallsaðgerðanna og sagðist hissa á því að stefna ráðherra væri ekki skýrari en svör hennar gæfu til kynna. Hún benti á að gjaldeyristekjur af sjávarútveginum væru miklar og lausn deilunnar væri lífsspursmál fyrir mörg viðkomandi byggðarlaga.

Ráðherra ítrekaði þá að verið væri að meta þær aðgerðir sem hugsanelga þyrfti að grípa til og möguleg áhrif. Sagði hún varhugavert ef þingmenn færu til að mynda að koma fram með frumvörp beint inn í kjaradeilu. Ráðuneytið væri hins vegar tilbúið til þess að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins nú sem endranær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert