Greiðslur til þingmanna munu lækka um sem svarar 150 þúsund króna launum á mánuði samkvæmt tillögum frá forseta Alþingis um breytingu á greiðslum til þingmanna sem formenn allra flokka óskuðu eftir. Í tillögunum er þó gert ráð fyrir að ákvörðun kjararáðs um hækkun launa þingmanna frá því í lok síðasta árs standi áfram, en þá hækkaði þingfararkaup um 44%.
Í tilkynningu frá forseta Alþingis kemur fram að forsætisnefnd Alþingis hafi þann 14. desember borist bréf frá formönnum stjórnmálaflokkanna þar sem farið var á leit við nefndina að hún endurskoðaði reglur um þingfararkostnað, en hann inniheldur meðal annars starfstengdar greiðslur til þingmanna.
Í bréfinu er gert ráð fyrir því að úrskurður kjararáðs um laun þingmanna sé látinn standa óbreyttur, en það var lík afstaða Alþingis sem lauk afgreiðslu kjararáðsfrumvarpsins fyrir jól.
Var óskað eftir því að breyta öðrum greiðslum til þingmanna, kostnaðargreiðslum sem forsætisnefnd þingsins ákvarðar, þannig að samanlagt hækki greiðslur til þingmanna minna en annars hefði orðið.
Forsætisnefnd fjallaði um málið og lét Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi forseti þingsins, gera tillögur um útfærsluna.
Málið var þó látið bíða fram að því að ný forsætisnefnd yrði kjörin. Á fundi nefndarinnar í dag lagði forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir, fram tillögu um að lækka greiðslur fyrir ferðakostnaði í kjördæmi og starfskostnaði. Ferðakostnaður lækkar um 54 þúsund krónur sem jafna má til um 100 þúsund króna í launagreiðslu, og starfskostnaður lækkar um 50 þúsund krónur samanlagt má jafna þessari lækkun við 150 þúsund krónur fyrir skatt.
Á fundi forsætisnefndarinnar var enn fremur samþykkt að taka núverandi lög um þingfararkaup og þingfararkostnað til endurskoðunar þar sem leiðarljósið verður einföldun og gagnsæi. Lögin eru að stofni til frá 1995.