„Þetta er ákaflega særandi – ég upplifi það bæði persónulega en einnig fyrir þjóðina í heild,“ segir Ali Amoushahi arkítekt, en hann hefur búið á Íslandi í um 20 ár og er kvæntur íslenskri konu. Hann er með tvöfalt ríkisfang, breskt og íranskt, og veit ekki alveg hvaða áhrif umdeild tilskipun Donald Trump Bandaríkjaforseta gæti haft á hann og möguleg ferðalög hans vestur um haf.
Eins og komið hefur fram undirritaði Trump tilskipun á föstudag en samkvæmt henni munu Bandaríkin ekki taka á móti flóttafólki næstu 120 daga. Þá munu ríkisborgarar frá sjö ríkjum, þar sem múslimar eru í meirihluta, ekki fá bandaríska vegabréfsáritun næstu þrjá mánuði. Um er að ræða Sýrland, Súdan, Sómalíu, Líbýu, Íran, Írak og Jemen. Ali þekkir engan persónulega sem hefur orðið fyrir áhrifum vegna tilskipunarinnar en hann fylgist vel með þróun mála.
„Fjölmargir Íranar búa í Bandaríkjunum en síðan byltingin var í Íran, fyrir þremur og hálfum áratug, hefur fjöldi Írana flutt þangað. Til að mynda eru Íranar næststærsti hópur innflytjenda í Los Angeles. Sumir samlandar mínir hafa búið vestanhafs í 30 ár og nýjar kynslóðir fólks hafa fæðst í Bandaríkjunum. Ég er ekki með það á hreinu hversu mikið þessi tilskipun mun hafa áhrif á það fólk,“ segir Ali í samtali við mbl.is.
Ali þurfti í fyrsta sinn að fá sérstaka vegabréfsáritun þegar hann fór til New York í fyrra, þrátt fyrir að vera með tvöfalt ríkisfang. „Þrátt fyrir að hún sé gild í 10 ár vil ég ekki taka áhættuna af því að fara þangað núna og verða jafnvel vísað frá borði. Ég hef heldur enga löngun til að fara þangað eins og staðan er í dag,“ segir Ali en íslenskum manni var í gær meinað að fljúga til Bandaríkjanna vegna tilskipunarinnar. Meisam Rafiei er íslenskur ríkisborgari en hann fæddist í Íran og er einnig með ríkisborgararétt þar í landi. Hann var á leið á US Open-mótið í taekwondo ásamt öðrum íslenskum keppendum þegar honum var vísað frá borði. Ali hefur einnig heyrt af samlöndum sínum sem eru sárir vegna tilskipunarinnar.
Frétt mbl.is: Fluttur frá borði á síðustu stundu
„Einn maður er að læra í Bandaríkjunum og konan hans hefur dvalið með honum á bráðabirgðalandvistarleyfi. Hún þurfti að fara heim til Íran og var ekki viss um að hún fengi landvistarleyfi aftur. Manninum finnst hann hafa verið móðgaður og langar að yfirgefa Bandaríkin.“
Ali þykir tilskipun Trump ákaflega vanhugsuð og móðgandi fyrir löndin sjö. Það sé ekki nein hryðjuverkaógn frá Íran og hafi ekki verið í mörg ár. „Það hefur ekki komið einn einasti hryðjuverkamaður frá Íran og undanfarin 30 ár a.m.k. hafa þeir sem staðið hafa að hryðjuverkum á Vesturlöndum ekki verið þaðan. Að tengja einhverja sérstaka ógn gagnvart íbúum Bandaríkjanna við mögulegar heimsóknir fólks sem er fætt í Íran eða öðrum þeim löndum sem eru á þessum svarta lista er ekkert annað en fáránlegt.“
Ali telur að tilskipunin eigi ekki eftir að skapa öryggi í Bandaríkjunum heldur muni hún skapa aukna spennu á milli Bandaríkjanna og áðurnefndra landa. „Bandaríkin hafa verið að berjast við Ríki íslams en þessi tilskipun gefur boltann í hendurnar á hryðjuverkamönnunum. Liðsmenn Ríkis íslams hljóta að vera ánægðir með þessa tilskipun, þetta var það sem þeir vildu og hellir olíu á eldinn. Trump hefur ekki hugsað málið til enda. Það er eins og hann sé að reyna að sanna sig og velur að gera það á svona ömurlegan hátt.“