Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og sendiherra, varð bráðkvaddur á heimili sínu mánudaginn 30. janúar. Eiður fæddist í Reykjavík 7. nóvember 1939. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1959, stundaði nám í stjórnmálafræði við háskólann í Delaware í Bandaríkjunum 1960-61, varð löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi í ensku 1962, lauk BA-prófi í ensku og enskum bókmenntum við HÍ 1967 og stundaði nám í sjónvarpsfræðum og upptökustjórn hjá ITV í London 1967 og hjá sænska sjónvarpinu 1968.
Eiður var blaðamaður og síðar ritstjórnarfulltrúi á Alþýðublaðinu 1962-67. Hann var yfirþýðandi og fréttamaður Sjónvarpsins á árunum 1967-78 og varafréttastjóri 1971-78. Eiður skrifaði reglulega fréttapistla í American Scandinavian Review 1962-72, var fréttaritari vikuritsins Time 1965-78 og fréttaritari CBS-útvarpsstöðvanna 1970-76.
Hann var alþingismaður Alþýðuflokksins í Vesturlandskjördæmi 1978-93, þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1983-91 og umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna 1991-93. Eiður var sendiherra Íslands í Ósló 1993-98 og fleiri umdæmislöndum sendiráðsins. Þá var hann fyrsti skrifstofustjóri Auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins 1998-2001, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada 2001-2002 og sendiherra Íslands í Kína og umdæmislöndum þess sendiráðs 2002-2006 og skrifstofustjóri menningarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins 2006. Eiður var skipaður aðalræðismaður Íslands í Færeyjum 2007 og var fyrsti diplómatíski embættismaður annars ríkis í Færeyjum. Hann lét af störfum í utanríkisþjónustunni í ársbyrjun 2009.
Eiður stjórnaði gerð fjölda heimildarkvikmynda og þýddi útvarpsleikrit og útvarpssögur. Hann sat m.a. í stjórn Skátafélags Reykjavíkur 1959-60, Fulbright-stofnunarinnar 1964-69, Blaðamannafélags Íslands 1968-73 og var formaður þess 1971-72. Eiður sat í flokksstjórn Alþýðuflokksins á árunum 1964-69 og 1978-93, var varaborgarfulltrúi Alþýðuflokksins í Reykjavík 1966-70, sat í útvarpsráði 1978-87 og var formaður fjárveitinganefndar Alþingis 1979-80.
Hann sat í Norðurlandaráði 1978-79 og 1981-89, var formaður Íslandsdeildar ráðsins 1978-79 og í forsætisnefnd þess. Hann var formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs 1981-87 og laganefndar 1987-89 og sat í fjárlaganefnd 1981-89. Eiður var fulltrúi á ráðgjafaþingi Evrópuráðs 1989-91, fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1980 og sat í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu frá 1982. Eiður var formaður Skátasambands Reykjavíkur 1988-89.
Eiður kvæntist Eygló Helgu Haraldsdóttur píanókennara 16. mars 1963. Hún lést 13. maí 2015. Börn Eiðs og Eyglóar eru Helga Þóra, Þórunn Svanhildur og Haraldur Guðni.