Andlát: Eiður Guðnason

Eiður Guðnason
Eiður Guðnason

Eiður Svanberg Guðnason, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og sendiherra, varð bráðkvaddur á heimili sínu mánudaginn 30. janúar. Eiður fæddist í Reykjavík 7. nóvember 1939. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1959, stundaði nám í stjórnmálafræði við háskólann í Delaware í Bandaríkjunum 1960-61, varð löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi í ensku 1962, lauk BA-prófi í ensku og enskum bókmenntum við HÍ 1967 og stundaði nám í sjónvarpsfræðum og upptökustjórn hjá ITV í London 1967 og hjá sænska sjónvarpinu 1968.

Eiður var blaðamaður og síðar ritstjórnarfulltrúi á Alþýðublaðinu 1962-67. Hann var yfirþýðandi og fréttamaður Sjónvarpsins á árunum 1967-78 og varafréttastjóri 1971-78. Eiður skrifaði reglulega fréttapistla í American Scandinavian Review 1962-72, var fréttaritari vikuritsins Time 1965-78 og fréttaritari CBS-útvarpsstöðvanna 1970-76.

Hann var alþingismaður Alþýðuflokksins í Vesturlandskjördæmi 1978-93, þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1983-91 og umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna 1991-93. Eiður var sendiherra Íslands í Ósló 1993-98 og fleiri umdæmislöndum sendiráðsins. Þá var hann fyrsti skrifstofustjóri Auðlinda- og umhverfisskrifstofu utanríkisráðuneytisins 1998-2001, aðalræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada 2001-2002 og sendiherra Íslands í Kína og umdæmislöndum þess sendiráðs 2002-2006 og skrifstofustjóri menningarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins 2006. Eiður var skipaður aðalræðismaður Íslands í Færeyjum 2007 og var fyrsti diplómatíski embættismaður annars ríkis í Færeyjum. Hann lét af störfum í utanríkisþjónustunni í ársbyrjun 2009.

Eiður stjórnaði gerð fjölda heimildarkvikmynda og þýddi útvarpsleikrit og útvarpssögur. Hann sat m.a. í stjórn Skátafélags Reykjavíkur 1959-60, Fulbright-stofnunarinnar 1964-69, Blaðamannafélags Íslands 1968-73 og var formaður þess 1971-72. Eiður sat í flokksstjórn Alþýðuflokksins á árunum 1964-69 og 1978-93, var varaborgarfulltrúi Alþýðuflokksins í Reykjavík 1966-70, sat í útvarpsráði 1978-87 og var formaður fjárveitinganefndar Alþingis 1979-80.

Hann sat í Norðurlandaráði 1978-79 og 1981-89, var formaður Íslandsdeildar ráðsins 1978-79 og í forsætisnefnd þess. Hann var formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs 1981-87 og laganefndar 1987-89 og sat í fjárlaganefnd 1981-89. Eiður var fulltrúi á ráðgjafaþingi Evrópuráðs 1989-91, fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1980 og sat í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu frá 1982. Eiður var formaður Skátasambands Reykjavíkur 1988-89.

Eiður kvæntist Eygló Helgu Haraldsdóttur píanókennara 16. mars 1963. Hún lést 13. maí 2015. Börn Eiðs og Eyglóar eru Helga Þóra, Þórunn Svanhildur og Haraldur Guðni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert