Verði gæludýrum leyft að ferðast með strætisvögnum í tilraunaskyni í eitt ár, þá verður að hvetja þá sem finna fyrir ofnæmiseinkennum vegna þessara ferfættu ferðafélaga til að láta vita ef þeir finna fyrir ofnæmiseinkennum, segir Davíð Gíslason ofnæmislæknir hjá Læknasetrinu.
Mbl.is greindi frá því í gær að Strætó bs. sé nú með til skoðunar tillögu starfshóps um að gæludýrum verði leyft að ferðast með strætó í ár í tilraunaskyni.
Frétt mbl.is: Vilja leyfa dýrin í strætó í eitt ár
„Það verður að gera ráð fyrir að þetta valdi einhverjum óþægindum en ég get ómögulega sagt hversu miklum,“ segir Davíð og ítrekar að hann byggi ekki skoðanir sínar á rannsóknum á notkun gæludýra á almenningssamgöngum. „Ég veit vel að dýrum er leyft að ferðast með almenningssamgöngum víða, t.d. á Norðurlöndunum,“ segir hann og kveðst telja að víða erlendis sé um svo gamlan sið að ræða að málið hafi aldrei komið til umræðu.
Dýraofnæmi er töluvert algengt að sögn Davíðs, sem segir á bilinu 10-12% af ungu fólki vera með kattarofnæmi. Tíðnin sé aðeins lægri varðandi hundaofnæmi, þar sé talan á bilinu 8-10% og þá séu ofnæmiseinkenni vegna katta verri en vegna hunda.
Fram kom í samtali mbl.is við Hallgerði Hauksdóttur, formanns Dýraverndarsambands Íslands að ofnæmisvakinn sé nú þegar til staðar í strætó í formi dýraeigandans sem ferðist með vagninum. Davíð segir vissulega rétt að það geti valdið ofnæmiseinkennum að sitja við hlið dýraeigenda. „En það dettur náttúrulega engum í hug að banna dýraeigendum að umgangast annað fólk,“ segir hann.
Dæmi um viðbrögð við mannlegum ofnæmisvökum sé þó að finna í skólum og leikskólum þar sem leikskólakennari með slæmt ofnæmi geti t.d. fundið fyrir einkennum frá barni sem kemur frá heimili þar sem er köttur.
Hann telur þó að köttur sem ferðist í búri í strætó sé ólíklegur til að valda miklum ofnæmiseinkennum sitji hann ekki í fanginu á viðkomandi. Þá séu ofnæmisviðbrögð við hundum minni, en engu að síður sé hægt að sá fyrir sér að væri komið inn í strætó með stórann hund í rigningu að þá gæti slíkt valdið viðbrögðum hjá þeim sem eru viðkvæmir. „Við vitum að hundur byrjar á að hrista sig þegar hann kemur inn í skjól. Við það þeytir hann bleytunni af sér út um stórt svæði og það er útilokað annað en að slíkt gæti valdið ofnæmi,“ segir Davíð.
Starfshópurinn kom með þá tillögu að dýrum yrði gert að vera aftast í vagninum og að sæti fremst í vagninum væru frátekin fyrir ofnæmisfólk. Þau sæti ættu dýraeigendur ekki að setjast í, óháð því hvort að dýrin væru með í för. Davíð segir slíkt vissulega hjálpa. „Best væri þó að dýrin gætu farið inn í vagninn að aftanverðu og það á ekki hvað síst við í rigningu þegar að stórir hundar væru að koma inn í vagninn.“
Hunda- og kattaofnæmi telst bráðofnæmi, þar sem ofnæmiseinkenni koma fram á nokkrum mínútum. Ofnæmisviðbrögð eru þó mismikil og er allt frá því að vera á frekar vægu stigi og yfir í að vera mjög sterk, en að sögn Davíðs eru þó fæstir með ofnæmi á það háu stigi.
Einkenni geta verið hvimleið og valdið óþægindum, þó ekki sé um lífshættulegt ofnæmi að ræða líkt og í tilfelli vissra matartegunda. Fyrstu einkenni eru hnerri og kláði í nefi og augum, en geta farið yfir andþyngsli og gæti jafnvel astmakast fyrir þann sem er með ofnæmi á háu stigi. Davíð segir lengd ferðar vissulega hafa áhrif í þessu sambandi.
„Það má gera ráð fyrir að það séu tiltölulega fáir sem fái slík einkenni, en það er alls ekki hægt að útiloka það,“ segir hann.
„Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að ef þetta á að vera raunveruleg tilraun í eitt ár eins og um er talað, að þá séu þeir sem finna fyrir einkennum hvattir til að láta vita.“