Löglegt verði að móðga þjóðhöfðingja

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum þar sem meðal annars er fjallað um móðganir við erlenda þjóðhöfðingja.

Frumvarpið var fyrst lagt fram á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það er núna endurflutt með breyttri og ítarlegri greinargerð.

Í greinargerðinni kemur fram að að á undanförnum misserum hafi talsvert þrengt að tjáningarfrelsi víða um heim. Frelsi blaðamanna hafi verið skert og stjórnvöld í einstökum ríkjum hafi reynt að uppræta gagnrýna umræðu, jafnvel yfir landamæri.

„Má í því samhengi nefna nýlegt mál þar sem þýsk stjórnvöld létu undan þrýstingi Tyrklandsstjórnar og heimiluðu málaferli gegn skemmtikrafti sem farið hafði óvirðulegum orðum um Erdogan, forseta Tyrklands. Ákvörðun þessi er almennt talin hafa verið mikill álitshnekkir fyrir þýsku ríkisstjórnina og ótíðindi fyrir tjáningarfrelsið,“ segir í greinargerðinni.

Þar segir einnig að 95. grein almennra hegningarlaga feli m.a. í sér „afar hörð viðurlög“ við því að smána erlend ríki, þjóðhöfðingja eða þjóðartákn á borð við fána. Þá sé tiltekið að óheimilt sé að ráðast gegn sendierindrekum með ofbeldi eða valda eignarspjöllum á sendiráðum eða lóðum þeirra. Kemur fram að báðir þessir hlutar lagagreinarinnar séu með öllu óþarfir og því beri að fella hana niður.

Kallaði Adolf Hitler blóðhund

„Lagaákvæðum sem standa eiga vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingja hefur sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar fallið dómar á grunni þeirra. Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot," kemur fram í greinargerðinni.

„Viðvíkjandi seinni hluta lagagreinarinnar, sem snýr sérstaklega að eignaspjöllum á sendiráðum, er um að ræða klausu sem bætt var við lögin árið 2002. Þann sama vetur höfðu þrír ungir menn verið kærðir og hlutu síðar dóm á grundvelli 95. gr. hegningarlaga fyrir að hafa kastað bensínsprengju að bandaríska sendiráðinu. Sú ákvörðun að kæra verknaðinn á grunni ákvæðisins um móðgun í garð erlendra ríkja og þjóðhöfðingja varð umdeild og er erfitt að skilja lagabreytinguna nema sem tilraun til að verja þá ákvörðun eftir á.“

Þingmennirnir sem leggja fram frumvarpið eru Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Orri Páll Jóhannsson.

Frétt mbl.is: „Fasisti, kvenhatari og rasisti“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert