Mein sem verður að uppræta

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

„Horfi maður til þess hvað hef­ur verið gert ann­ars staðar þá er það meðal ann­ars að auka notk­un raf­eyr­is með ýmsu móti. Hvort sem það er í gegn­um banka, kort eða annað. Þar á meðal á hinum Norður­lönd­un­um. Ég ætla að láta kanna hvað við get­um lært af þeim og hvort við get­um ekki tekið upp svipaða hætti hér,“ seg­ir Bene­dikt Jó­hann­es­son fjár­málaráðherra í sam­tali við mbl.is spurður til hvaða aðgerða stjórn­völd geti gripið vegna svartr­ar at­vinnu­starf­semi.

Ráðherr­ann greindi í gær frá þeim fyr­ir­ætl­un­um sín­um að und­ir­búa lög­gjöf í þeim til­gangi þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé. Enn frem­ur að all­ir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegn­um banka eða kred­it­kort þannig að viðskipt­in yrðu rekj­an­leg. Spurður nán­ar um þessi áform seg­ir Bene­dikt að ekki yrði um mikla breyt­ingu að ræða fyr­ir nær alla launa­greiðend­ur þar sem launa­greiðslur færu þegar að lang­mestu leyti fram með ra­f­ræn­um hætti.

„Ég hugsa að þetta yrði ekki mik­il breyt­ing fyr­ir svona 99% fyr­ir­tækja. Flest­ir greiða inn á banka­reikn­inga og það eru ekki marg­ir af heild­inni sem greiða laun með reiðufé. Þannig að það yrði ekki um mikla bylt­ingu að ræða fyr­ir lang­flest fyr­ir­tæki. En í ein­hverj­um bröns­um viðgengst þetta enn þá,“ seg­ir Bene­dikt. Fyr­ir því geti vit­an­lega verið eðli­leg­ar ástæður en það geti líka tengst bæði skattaund­an­skot­um, pen­ingaþvætti og jafn­vel greiðslum fram hjá kjara­samn­ing­um.

„Það er í sjálfu sér ekki hug­mynd mín að það sé stöðugt verið að tékka á þessu öllu en ef grun­ur sé um eitt­hvað mis­jafnt þá sé auðvelt að rekja ferlið. Þetta er eins og með ör­ygg­is­mynda­vél­ar. Það er ekki stöðugt verið að fylgj­ast með Lauga­veg­in­um en ef eitt­hvað kem­ur upp á þá er gott að hafa þær,“ seg­ir hann áfram.

„Eng­in ger­breyt­ing frá því sem nú er

Hvað varðar það að all­ir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegn­um banka eða kred­it­kort seg­ir Bene­dikt að það snú­ist líka um að berj­ast gegn mögu­legu pen­ingaþvætti og skattaund­an­skot­um. Þar væri átt við um­tals­verðar fjár­hæðir þó ekki liggi fyr­ir hvað yrði miðað við í því sam­bandi.

„Þetta yrði eng­in ger­breyt­ing frá því sem nú er. Lang­flest af því sem við ger­um er skráð,“ seg­ir Bene­dikt og vís­ar þar til að mynda til bif­reiðakaupa og fast­eigna­kaupa en ein­hverj­ir hafi viðrað áhyggj­ur af friðhelgi einka­lífs­ins í þessu sam­bandi. Þá hafi aðrir nefnt kostnað við þetta.

„Það þarf að kanna þetta allt sam­an. Þetta eru bara atriði sem þarf að hafa í huga þegar gerðar eru slík­ar breyt­ing­ar,“ seg­ir hann. Rifjar hann upp að ein­hvern tím­ann hafi verið rætt um að Ísland yrði orðið seðlalaust þjóðfé­lag inn­an ekki svo langs tíma.

Spurður um af­l­ands­fé­lög og aðgerðir í þeim efn­um seg­ir Bene­dikt að áfram þurfi að skoða þau mál í kjöl­far skýrslu sem unn­in var af starfs­hópi um eign­ir Íslend­inga á af­l­ands­eyj­um. Mik­il­vægt sé meðal ann­ars að kort­leggja þau viðskipti þar sem um hef­ur verið að ræða svo­kallaða fa­kt­úru­föls­un þar sem gefn­ir hafi verið út rang­ir reikn­ing­ar í milli­ríkjaviðskipt­um til þess að skjóta und­an fé.

„Líkt og formaður starfs­hóps­ins hef­ur komið inn á þá hefði hugs­an­lega þurft að gefa þess­ari vinnu betri tíma. Þau voru að vinna þetta á tíma þegar marg­ir voru í fríi eins og kem­ur fram í skýrsl­unni. Þannig að ég tel að það væri gott að fá ít­ar­legri vinnu í þeim efn­um á næstu mánuðum vegna þess að þessi skattaund­an­skot eru mein sem við verðum að upp­ræta. Það eiga all­ir að fylgja sömu lög­um og regl­um.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert