Tveir með tengsl við hryðjuverkasamtök

Á árunum 2015 og 2016 voru rúmlega 20 hryðjuverk framin …
Á árunum 2015 og 2016 voru rúmlega 20 hryðjuverk framin í Evrópu. AFP

Hættustig vegna mögulegra hryðjuverka á Íslandi er metið í meðallagi af greiningardeild ríkislögreglustjóra. Meðallag er skilgreint sem svo að almennt sé talið „að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.“

Greiningardeild ríkislögreglustjóra birti á mánudag nýtt mat á hættu á hryðjuverkum en þar kemur meðal annars fram að skýrsla greiningardeildar frá árinu 2015 sé að mestu í fullu gildi. „En líkt og sagt var fyrir um í henni hefur ógnarmyndin í Evrópu tekið nokkrum breytingum.“

Á árunum 2015 og 2016 voru rúmlega 20 hryðjuverk framin í Evrópu en á sama tíma er ljóst að lögreglu hafi tekist að „koma í veg fyrir tugi fyrirhugaðra árása,“ segir í skýrslunni.

Greiningardeildin hefur upplýsingar um að á sama tíma „hafi komið hingað til lands einstaklingar með tengsl við hryðjuverkasamtök og óskað eftir alþjóðlegri vernd.“

Í samtali við RÚV staðfestir Ásgeir Karlsson hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra að um tvo einstaklinga sé að ræða sem hafi komið til landsins á árunum 2015 og 2016. Ásgeir sagði að mennirnir væru farnir úr landi en vildi ekki veita upplýsingar um hvenær eða hvernig það hefði verið.

Átökin í Sýrlandi hafa kallað fram fordæmalausan flóttamannastraum til Evrópu.
Átökin í Sýrlandi hafa kallað fram fordæmalausan flóttamannastraum til Evrópu. AFP

Mest hætta metin í Danmörku

Sagt er að á Norðurlöndum sé hryðjuverkaógnin „einkum talin stafa af herskáum íslamistum“ og að yfirvöld þar hafi „vaxandi áhyggjur af ríkisborgurum sem snúa heim eftir að hafa tekið þátt í bardögum og ógnarverkum í Mið-Austurlöndum í nafni hryðjuverkasamtaka.“

  • Í Danmörku er hættustig nú metið á fjórða þrepi á fimm stiga kvarða og telst hryðjuverkaógnin áfram alvarleg
  • Í Noregi er talið að óvissa fari vaxandi og að „hætta á hryðjuverkum íslamista í landinu sé til staðar. […] Norðmenn nota ekki kvarða til að lýsa hættuástandinu vegna hryðjuverkaógnar.“
  • Í Svíþjóð er hættustig nú metið á þriðja þrepi á fimm stiga kvarða og það hækkaði í mars á síðasta ári
  • Í Finnlandi var hryðjuverkaógn síðast metin í lok árs 2015. Þá var hættustig hækkað úr mjög lágu í lágt.

Greiningardeild telur að ógnarmyndin sé nokkuð frábrugðin á Íslandi þar sem ekki sé „vitað til þess að Íslendingar hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtök.“ Þá er samsetning hópsins sem sækir um vernd á Íslandi önnur en á hinum Norðurlöndunum.

„Þar er flóttafólk frá Mið-Austurlöndum stærsti hópurinn. Á Íslandi eru flestir þeirra sem leita alþjóðlegrar verndar frá löndum þar sem friður ríkir.“ Í skýrslunni segir þó að hælisleitendum frá átaka- og spennusvæðum hafi fjölgað „verulega á Íslandi árið 2016“ og að líklegt sé „að sú þróun haldi áfram.“

Á Íslandi og í öðrum vestrænum ríkjum stafar einnig ógn „af getu hryðjuverkasamtaka til að koma á framfæri áróðursboðskap á internetinu og samfélagsmiðlum í því skyni að hvetja til hryðjuverka.“

„Þá er sá möguleiki fyrir hendi að á Íslandi fari fram skipulagning hryðjuverka sem ráðgert er að fremja í öðru ríki,“ segir í skýrslunni en greiningardeild hefur einnig upplýsingar um að „Ísland hafi verið notað sem „gegnumstreymisland“ manna frá Norður-Ameríku á leið til og frá þátttöku í bardögum í Mið-Austurlöndum í nafni Ríkis íslam.

Ríki íslams lýsti á hend­ur sér ábyrgð á hryðjuverkaárás­inni í …
Ríki íslams lýsti á hend­ur sér ábyrgð á hryðjuverkaárás­inni í borg­inni Nice, sem varð 84 að bana á þjóðhátíðar­degi Frakka. AFP

Ógnin í Evrópu

Innan Evrópusambandsins meta ríki ógn vegna hryðjuverka á mismunandi vegu, allt frá lágu hættustigi til þess hæsta á kvarða viðkomandi ríkis. Lítil ógn er talin vera fyrir hendi í Mið- og Austur-Evrópu, Portúgal og Möltu en mest er ógnin í Vestur-Evrópu, til dæmis í Frakklandi, Belgíu, Bretlandi, Danmörku og á Spáni.

Breytingar hafa einnig orðið á ógnarmynd í Evrópu frá skýrslunni árið 2015. Að mati greiningardeildarinnar eru helstu breytingarnar af þrennum toga:

  1. „Í fyrsta lagi hafa á síðustu tveimur árum verið framin stórfelld hryðjuverk í Evrópu sem kostað hafa hundruð manna lífið auk þess sem fjöldi óbreyttra borgara hefur særst og örkumlast.“
  2. „Í öðru lagi hefur staðan á átakasvæðum í Mið-Austurlöndum breyst. […] Þetta hefur í för með sér að dregið hefur stórlega úr þeim fjölda manna sem ferðast til Mið-Austurlanda í því skyni að berjast í nafni ISIS. […] Tiltækar heimildir benda til að umsnúningur hafi orðið á streymi erlendra vígamanna til Mið-Austurlanda og nú leggi einhverjir þeirra kapp á að komast frá átakasvæðunum og aftur til fyrri heimkynna í Evrópu […] með tilheyrandi öryggisógn gagnvart ríkjum Evrópu.“
  3. „Loks hafa átökin í Sýrlandi/Írak kallað fram fordæmalausan flóttamannastraum til Evrópu. Vestrænar löggæslustofnanir telja almennt að áhætta kunni að vera fólgin í þeim fólksflutningum. Bent er á þann möguleika að íslömsk hryðjuverkasamtök nýti sér veikleika á landamærum […].“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert