Afhentu Færeyingum söfnunarfé

Regin Jespersen flytur þakkarávarp sitt. Valdís Steinarrsdóttir lengst til vinstri …
Regin Jespersen flytur þakkarávarp sitt. Valdís Steinarrsdóttir lengst til vinstri og hægra megin Rakel Sigurgeirsdóttir, Orri Vigfússon og Gísli Gíslason.

Regin Jespersen, formaður Félagsins fyrir landsbjargingarfélögin í Færeyjum (systurfélags Landsbjargar í Færeyjum) fékk í dag afhentar 5.755.000 krónur sem söfnuðust hérlendis eftir fáviðrið sem gekk yfir Færeyjar um jólin og olli miklu tjóni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar.

Björgunarsveitir Færeyinga sinntu ótal útköllum og störfuðu við erfiðar aðstæður meðan veðrið gekk yfir. Skemmdust sum tæki og tók þeirra í veðrinu. Niðurstaða þeirra sem að söfnuninni stóðu varð að björgunarsveitir Færeyinga skyldu fá það sem hér safnaðist.

Rakel Sigurgeirsdóttir og Valdís Steinarrsdóttir afhentu fjármunina í Sendistofu Færeyja í Reykjavík ásamt gjafabréfi þar sem segir að þess sé vænst að peningunum sé varið á þann veg að nýtist Færeyingum sem best. Þær höfðu frumkvæði að söfnuninni í framhaldi af ákalli á Fésbókarsíðunni Færeyingar og Íslendingar eru frændur. Söfnunin hófst 29. desember og henni lauk 17. janúar.

Regin Jespersen vottaði aðstandendum Birnu Brjánsdóttur og íslensku þjóðinni innilega samúð í upphafi þakkarávarps síns. Hann kvað Færeyinga hafa fylgst með sorg í hjarta með frásögnum íslenskra fjölmiðla af þessum hræðilega atburði.

Jespersen færði síðan gefendum í söfnunina innilegar þakkir og sagði gjöfina enn einu sinni sýna og sanna það sem Færeyingar segðu: „Íslendingar eru frændþjóð okkar í vestri“. Hann lét þess getið að fulltrúar björgunarsveitanna í Færeyjum myndu nýta Íslandsferðina nú til þess að fá ráð hjá Landsbjörgu um fjarskiptabúnað til að koma sér upp í stað tækjanna sem eyðilögðust í jólafárviðrinu og verja þannig söfnunarfénu.

Við þetta sama tækifæri í dag voru undirritaðar annars vegar viljayfirlýsing Rauða Krossins á Íslandi og í Færeyjum um samstarf og hins vegar viljayfirlýsing Landsbjargar og Félagsins fyrir landsbjargingarfelögin í Færeyjum um samstarf.

Gísli Gíslason hafnarstjóri var drifkraftur við undirbúningi samkomunnar í dag ásamt Orra Vigfússyni athafnamanni, Rakel, Valdísi, starfsfólki Sendistofu Færeyja og fleirum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði ekki tök á að vera á vettvangi en hann hefur boðið færeysku gestunum og íslenskum aðstandendum söfnunarinnar til Bessastaða á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert