Mikið fjölmenni var við útför Birnu Brjánsdóttur sem fram fór frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag. Var hvert sæti skipað en athöfnin hófst í kirkjunni klukkan þrjú.
Kveðjur voru lesnar upp, meðal annars frá Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, og heimilisfólkinu á Sólheimum í Grímsnesi. Séra Vigfús Bjarni Albertsson sá um athöfnina en kistuberar voru vinir Birnu.
Einsöng fluttu Páll Óskar Hjálmtýsson, Jóhann Helgason og Ellen Kristjánsdóttir. Kórsöngur var í höndum karlakórsins Fóstbræðra og Schola cantorum.
Erfidrykkja fór síðan fram í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Aðstandendur Birnu hafa bent þeim sem vilja minnast hennar á að styrkja Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Fjölskylda Birnu óskaði eftir því að fjölmiðlar sýndu nærgætni í umfjöllun sinni um útförina, og tækju ekki nærmyndir af syrgjandi fólki.