Staðfest hefur verið að gas hafi safnast upp í neysluvatnskerfi bygginga í nágrenni háhitasvæðis á Reykjanesi. Um staðbundið vandamál er að ræða og hafa öll hús sem nýta vatn frá borholunni verð rýmd. Einn maður lést og annar var fluttur á sjúkrahús eftir alvarlegt vinnutengt slys sem átti sér stað hjá einu fyrirtækjanna í nótt.
Magnús H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, staðfestir að gas hafi lekið í gegnum neysluvatnskerfi inn í byggingar fyrirtækja sem eru í nágrenni háhitasvæðis. Fyrirtækin eru átta talsins og deila með sér sér vatnsveitu og borholu sem hefur verið nýtt í töluverðan tíma.
Lögreglan á Suðurnesjum rýmdi í morgun húsakynni fyrirtækjanna á meðan verið er að kanna hvað gerðist.
Frétt mbl.is: Starfsemi stoppuð vegna loftmengunar
Mbl.is greindi frá því nú í hádeginu að Vinnueftirlitið hafi stöðvað alla vinnu hjá fyrirtækjunum Haustak, Stolt Seafarm og Háteigi á meðan að rannsókn stendur yfir, en það var starfsmaður Háteigs sem fannst látin í svefnskála fyrirtækisins á svæðinu í morgun. Annar maður sem dvaldi í skálanum var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til meðhöndlunar.
Magnús segir um einangrað vandamál að ræða, sem sé alfarið bundið við þessar byggingar. Öðrum stafi ekki hætta af og því hafi umferð um svæðið ekki verið heft. „En það fær enginn að fara inn í húsin fyrr en búið er að skoða þetta betur,“ segir hann.
Í yfirlýsingu sem Lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér fyrir skömmu er ítrekað að neysluvatn til almennings á Suðurnesjum sé í góðu lagi. Verið sé að ljúka nauðsynlegum hreinsunarstörfum og engin hætta sé á ferðum varðandi almenning.
Brennisteinsvetni, sem er efni sem kemur úr öllum borholum og er hættuleg gastegund í of miklu magni, fannst á svæðinu að sögn Magnúsar. Ýmislegt bendir þá til að kolmónoxíð hafi einnig fundist, en uppruni þess sé óljós og verið er að skoða hvort að það sé rétt og þá hvernig það hafi komist inn í vatnslagnirnar.
„Nú er verið að skola út þessar leiðslur og reyna að finna út úr því hvernig þetta gat gerst. Þegar að það er búið þá fara menn frá heilbrigðiseftirlitinu með þar tilgerða mæla á svæðið og skoða hvort vatnið sé orðið hreint,“ segir hann.
Að því loknu verða skoðaðar þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar til að fyrirbyggja sambærileg atvik. „Við eigum eftir að skoða með sérfræðingum hvað gerðist og hvernig hægt er að fyrirbyggja að það gerist aftur í framtíðinni,“ segir Magnús. Fyrr verður ekki heimiluð notkun á vatni úr borholunni.