„Í guðanna bænum gerið það ekki“

Birgir Jakobsson landlæknir.
Birgir Jakobsson landlæknir. mbl.is/Hallur

Birgir Jakobsson landlæknir telur það mikið óheillaskref ef fyrirhugað frumvarp um breytingu á smásölu áfengis verður að lögum. 

„Ég er mjög andvígur þessu frumvarpi af ýmsum ástæðum. Aðallega vegna þess að allar rannsóknir sem eru aðgengilegar sýna að aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu á því,“ segir Birgir í samtali við mbl.is en verði frumvarpið að lögum verður einka­leyfi ÁTVR á sölu áfeng­is af­numið frá og með næstu ára­mót­um. Sala áfeng­is verður heim­iluð í sér­versl­un­um í sérrým­um inn­an versl­ana og áfengisaug­lýs­ing­ar inn­lendra aðila verða heim­ilaðar og leyfðar í inn­lend­um fjöl­miðlum.

Birgir segir að neysla áfengi aukist sérstaklega hjá þeim hópum sem eru viðkvæmir, yngra fólk og fólk sem þolir ekki áfengi. „Við vitum að ef áfengisneysla eykst hefur það skaðleg áhrif á heilsu fólks og eykur þar af leiðandi vanlíðan og kostnað í samfélaginu. Það er hlutverk þessa embættis að stuðla að auknu heilbrigði landsmanna.

Skattlagning og takmarkað aðgengi besta forvörnin

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að auknum fjármunum verði varið í forvarnastarf en Birgir segir að það sé ekki nóg. „Forvarnir hvað varðar áfeng, tóbak eru mest takmarkað aðgengi og skattlagning, það er staðreynd. Fræðsla og forvarnir eru af hinu góða en eitt og sér dugar það ekki.

Landlæknir segir að fyrirhugað frumvarp sé algjörlega í andstöðu við lýðheilsustefnu fyrrverandi ríkisstjórnar. „Raunverulega er það í andstöðu við það sem alþjóðasamtök segja; að hafi maður ekki sleppt þessu frjálsu í guðanna bænum gerið það ekki. Þetta skref verður aldrei tekið til baka og er óheillaspor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert