Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) er enn með til rannsóknar flugslys suður af Hafnarfirði í nóvember 2015. Þar brotlenti kennsluflugvél af gerðinni Tecnam P2002JF með þeim afleiðingum að tveir menn létust, flugkennari og nemandi hans sem var að öðlast kennsluréttindi á þessa tegund flugvéla.
Bráðabirgðaskýrsla um slysið liggur ekki fyrir en staða rannsóknarinnar er upplýst á vef nefndarinnar, rnsa.is. Þar segir að eftir snertilendingar á Reykjavíkurflugvelli hafi Tecnam-vél verið flogið yfir æfingasvæði suður af Hafnarfirði þar sem m.a. ofrisæfingar voru fyrirhugaðar. „Við rannsóknina hefur komið í ljós að líklegt er að flugvélin hafi spunnið til jarðar,“ segir á vef RNSA.
Fram kemur að í mars og apríl á síðasta ári hafi orðið slys á samskonar Tecnam-vélum í Póllandi og Ungverjalandi, þar sem ummerki bendi til þess að vélarnar hafi einnig spunnið til jarðar.