Lýstu yfir vanþóknun á starfsháttum Braga

Bragi Björnsson, fyrrverandi skátahöfðingi.
Bragi Björnsson, fyrrverandi skátahöfðingi.

Samþykkt var að lýsa yfir vanþóknun á starfsháttum fyrrverandi skátahöfðingja á aukaskátaþingi sem haldið var í dag. Vantrauststillaga gegn aðstoðarskátahöfðingjanum var felld.

Á þinginu var skorað á stjórn Bandalags íslenskra skáta, BÍS, að draga uppsögn fyrrverandi framkvæmdastjóra til baka. Sú áskorun var samþykkt og bíður afgreiðslu stjórnarinnar.

Samkvæmt greinargerðum sem fylgdu tillögunum var vanþóknun og vantrausti lýst á þau vegna starfshátta og vinnubragða þeirra við uppsögn Hermanns Sigurðssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra. Bragi Björnsson, fyrrverandi skátahöfðingi, steig nýverið til hliðar vegna málsins og með vanþóknunaryfirlýsingunni, sem samþykkt var á þinginu í dag, staðfestist það vantraust sem leiddi til afsagnar hans, segir í fréttatilkynningu frá BÍS.

Frétt mbl.is: „Vona að það skapist friður“

Í fréttatilkynningunni segir að niðurstaða þingsins hafi verið sú að vantrausttillagan gegn aðstoðarskátahöfðingjanum var felld með yfirgnæfandi meirihluta og situr því Fríður Finna áfram í stjórn BÍS. Þar sem skátahöfðingi hefur stigið til hliðar er Fríður núna starfandi skátahöfðingi fram að næsta skátaþingi sem fer fram 10.-12. mars. Þá verður nýr skátahöfðingi kosinn.

Á þinginu tilkynnti Fríður Finna að hún muni ekki gefa áfram kost á sér í stjórn.

Á komandi skátaþingi var áætlað að kjósa um sæti aðstoðarskátahöfðingja, formanns ungmennaráðs og formanns upplýsingaráðs. Eftir að skátahöfðingi steig til hliðar í janúar bættist það sæti við kjörlistann. Á þinginu tilkynntu formaður alþjóðaráðs, Jón Þór Gunnarsson, og gjaldkeri, Sonja Kjartansdóttir, að þau gæfu kost á sér á ný og sæktust eftir endurnýjuðu umboði á komandi skátaþingi en þau hafa ekki lokið kjörtímabilum sínum.

Formaður dagskrárráðs, Una Guðlaug Sveinsdóttir sem á eitt ár eftir af sínu kjörtímabili, tilkynnti að hún ætlaði að hætta í stjórn í mars og sæi sér ekki fært að klára tímabilið. Ljóst er því að miklar mannabreytingar verða í stjórn BÍS í mars.

 Tilfinningaþrunginn tími

„Þetta er búið að reynast mjög erfiður og tilfinningaþrunginn tími fyrir alla skátahreyfinguna,“ er haft eftir Heiði Dögg Sigmarsdóttur, stjórnarmanni í BÍS, í fréttatilkynningu.

„Við ætlum núna að leggja áherslu á að skapa sátt og frið milli félagsmanna svo að við getum einblínt okkur að starfi skáta í landinu. Það er margt spennandi fram undan eins og alþjóðlega skátamótið World Scout Moot núna í sumar sem krefst mikils undirbúnings enda erum við að búast við hátt í 6.000 erlendum þátttakendum til Íslands. Síðan í mars munum við kjósa nýjan skátahöfðingja og aðstoðarskátahöfðingja. Við lítum björtum augum til framtíðar.“

Þessi frétt var uppfærð kl. 21.10 í kvöld eftir að svohljóðandi leiðrétting barst frá Bandalagi íslenskra skáta: 

„Því miður urðu örlítil mistök við gerð seinustu fréttatilkynningar þar sem talað var um vantrauststillögu á hendur Braga Björnssyni. Hið rétta er að um var að ræða vanþóknunaryfirlýsingu en ekki vantrauststillögu. Það leiðréttist hér með.

„Aukaskátaþing haldið á Kjalarnesi 4.febrúar 2017 að kröfu 16 skátafélaga lýsir yfir vanþóknun á starfsháttum og vinnubrögðum Braga Björnssonar fv. skátahöfðingja við uppsögn Hermanns Sigurðssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍS 13. desember 2016. Með þessari yfirlýsingu staðfestist það vantraust sem leiddi til afsagnar Braga,“ segir í yfirlýsingunni.

Einnig skal leiðrétt að „áskorun til stjórnar BÍS að draga uppsögn Hermanns Sigurðssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra til baka“ var samþykkt af þinginu og er því nú komin inn á borð stjórnar BÍS til yfirferðar. Stjórn hefur ekki tekið ákvörðun um hvort draga eigi uppsögnina til baka eða ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert