„Æi, elsku Brynjar minn“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, Hanna Katrín Friðriksson, Egill Helgason, Birgitta Jónsdóttir …
Kolbeinn Óttarsson Proppé, Hanna Katrín Friðriksson, Egill Helgason, Birgitta Jónsdóttir og Brynjar Níelsson í fyrsta þætti Silfursins í morgun. Skjáskot/RÚV

„Æi, elsku Brynjar minn, ekki fara niður á þetta plan,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um áfengisfrumvarpið í sjónvarpsþættinum Silfrinu í morgun. Voru þeir að ræða um hvort ríkið eða einkaaðilar ættu að sjá um áfengissölu í landinu. Kallaði Brynjar Kolbein „ótrúlegan ríkissinna“.

Fjórir fulltrúar stjórnmálaflokka voru mættir til Egils Helgasonar í fyrsta þættinum sem hófst á RÚV kl. 11 í morgun. Auk Kolbeins og Brynjars voru Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, meðal viðmælenda. 

„Á endanum snýst þetta aðeins um það hvort ríkið eigi að hafa einkaleyfi á að höndla með þetta eða hvort einkaaðilar eigi að gera það,“ sagði Kolbeinn. „Mér finnst að það standi upp á þá sem vilji breyta kerfinu að fullvissa okkur og sannfæra um að það muni ekki hafa þær afleiðingar í för með sér sem landlæknir og lýðheilsuyfirvöld spá að muni gerast og styðjast við gögn frá öðrum löndum. Það á ekki að vera þeirra sem vilja óbreytt ástand að sanna að eitthvað muni gerast þegar þú breytir því, heldur hinna sem vilja breyta því.“

„Kolbeinn, sko menn geta alltaf sagt eitthvað svona,“ sagði Brynjar þá. 

„Vilt þú að hver sem er geti keypt áfengi?“ sagði Kolbeinn.

Brynjar sagði að landlæknir væri að gæta að heilsu þjóðarinnar og „vildi auðvitað helst ekki hafa neitt áfengi í landinu“. Benti hann á að vínbúðum hefði fjölgað hér á landi og sömuleiðis vínveitingaleyfum. „Samt hefur drykkja ungmenna minnkað. Hvað ætlar landlæknir að segja við því?“

Brynjar sagðist líta svo á að fara ætti milliveg og afnema einokun ríkisins á áfengissölu. Ekki ætti endilega að selja vín í „Bónus og Hagkaup“ heldur hafa það áfram í sérstökum áfengisverslunum. Ríkið ætti hins vegar ekki að reka þær. „Ríkið þarf ekki að sjá um þetta, Kolbeinn. Þú ert alveg ótrúlega mikill ríkissinni. Það er eins og engum sé treystandi nema einhverjum embættismanni.“

Kolbeinn greip þá orðið og sagði: „Æi, elsku Brynjar minn, ekki fara niður á þetta plan, elsku kallinn.“

Þá sagði Brynjar: „Þú fórst niður á þetta plan.“

Kolbeinn bætti þá við að hann vildi að hlustað yrði á þá sem betur vita um lýðheilsu landsmanna „en Brynjar Níelsson“.

Kolbeinn benti svo á að um vímuefni væri að ræða og að allir væru sammála um að það þyrftu að vera einhverjar reglur, einhver umgjörð um söluna. Brynjar sagði að fyrirkomulagið gæti verið það sama og í apótekum.

Áhugi á stóru, litlu máli

Hanna Katrín sagði að fólk hefði mikinn áhuga á áfengisfrumvarpinu, það væri „stórt lítið mál“ eins og mörg önnur mál sem lögð væru fyrir þingið. Hún sagði það sína persónulegu skoðun að afnema ætti einokun ríkisins á sölunni en sagði að einnig þyrfti að taka tillit til lýðheilsusjónarmiða og að þau ætlaði hún að skoða betur. Hún tók undir með Brynjari að mögulega væri hægt að fara bil beggja, afnema einokunina og fela einkaaðilum rekstur vínbúða. 

Birgitta sagði að eðlilega hefði fólk áhuga á málinu. Margir þekktu alkóhólisma af eigin raun og skuggahliðar hans. „Það eru eðlilega miklar tilfinningar í gangi,“ sagði Birgitta. Hún hefur lagt til að málið verði lagt í þjóðaratkvæði.

Hún sagði skiptar skoðanir meðal Pírata um hvernig ætti að leysa þetta mál. „Mér finnst einn aðalkosturinn við þjóðaratkvæðagreiðslu vera sá að þá er hægt að fá fullt af upplýsingum upp á yfirborðið og fólk getur tekið upplýstar ákvarðanir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka