Óvenjumikið myrkur grúfir nú yfir miðborginni en um er að ræða þátt í Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar. Tilgangur myrkvunar miðborgarinnar er að vekja athygli á hugmyndinni um myrkurgæði og gera fólki kleift að „upplifa himinhvolfið í sinni tærustu mynd,“ líkt og segir í tilkynningu frá borginni.
Ljósmyndari mbl.is setti sig í stellingar þegar myrkur var við það að skella á og fangaði miðborgina fyrir og eftir myrkvun. Myndirnar sem fylgja fréttinni voru teknar með myndavél á þrífæti og voru stillingar á vélinni þær sömu í báðum tökum.
Þess ber að geta að öll umferðarljós í borginni eru virk og þá hefur myrkvunin engin áhrif á öryggiskerfi.