Fer ekki í „stórkostlegar breytingar“ á heilbrigðiskerfinu

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, vill að nýr Landspítali rísi við Hringbraut.
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, vill að nýr Landspítali rísi við Hringbraut. mbl.is/Styrmir Kári

Spýta þarf í lófana og hefja vinnu við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og hjúkrunarheimila og huga jafnframt að mönnun margra heilbrigðisstétta. Þetta eru eru allt samhangandi verkefni. „En það leysir ekki málin í dag,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, um það erfiða ástand og mikla álag sem ríkir á sjúkrahúsinu. Hann segist ekki ætla að fara í „stórkostlegar breytingar“ á heilbrigðiskerfinu. Engin ákvörðun hafi enn verið tekin um hvort samið verði við Klíníkina um rekstur legudeildar eins og hún hefur sóst eftir og fengið leyfi landlæknis fyrir.

Viðbúnaður á Landspítalanum er nú á hæsta stigi. Rúmanýting er yfir 100% sem þýðir að sjúklingar þurfa að liggja á göngum og í geymslum. Ráðherrann segir ástandið fyrst og fremst úrslausnarefni stjórnar spítalans. Hún sé að reyna eftir megni að bregðast við, meðal annars með því að leita leiða til að útskrifa fólk sem liggur inni á meðan það bíður eftir öðrum úrræðum s.s. hjúkrunarrýmum.

„Við höfum vitað lengi af þessum vanda. Það hefur verið tregða í því að útskrifa sjúklinga, sérstaklega þá sem þurfa dvöl á hjúkrunarheimilum. Það er vandamál sem bæði spítalinn og fleiri hafa verið að skoða, hvort að það séu pláss einhvers staðar, einhverjir möguleikar í því.“

Óttarr átti í morgun fund með Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans. „Ég veit að það er alls konar vinna í gangi á spítalanum til að treysta stoðirnar og taka á ástandinu.“

Álagið aukist síðustu ár

Hann segir að því miður sé þetta ekki í fyrsta skipti sem svona mikið álag verði á spítalanum. „Ég, eins og hvert mannsbarn á landinu, hef tekið eftir og verið meðvitaður um þessa stöðu af því að hún er ekki ný af nálinni og hefur verið að aukast síðustu árin; þessi þrýstingur, þetta álag. Auðvitað vil ég gera sem mest til að vinna á þessari stöðu. Þess vegna sóttist ég nú sérstaklega eftir heilbrigðismálunum, til þess að geta gert mitt og leggja sérstaka áherslu á heilbrigðismálin í þessari ríkisstjórn. Það er sérstakt keppikefli.“

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er skýrt tekið fram að hefja eigi vinnu við uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Heilbrigðisráðherra segir að hingað til hafi sú vinna gengið hægt. „Sem betur fer erum við nú komin af stað með það. Meðferðarkjarninn er fjármagnaður í fjármálaáætlun.“ Vilji sé til þess að hann verði kominn í notkun fyrir árið 2023.

Vill uppbyggingu við Hringbraut

Óttarr segist vilja sjá nýjan spítala rísa við Hringbraut. Það sé tekið fram í stjórnarsáttmálanum. „Sú vinna er mjög langt komin, hún hefur verið í gangi skipulagslega séð frá árinu 1975 þannig að það er kannski ekki seinna vænna.“

Hvað varðar álagið á spítalanum hafa fleiri þættir en bygging nýs spítala verið nefndir til sögunnar. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Birgi Jakobssyni landlækni að 50-60% sérfræðinga á Landspítalanum séu í hlutastarfi. Þá séu reyndir sérfræðingar færri þar en á sambærilegum sjúkrahúsum erlendis. Þetta sé m.a. skýringin á hægu flæði í starfseminni. Spurður hvort hann vilji sjá þetta breytast svarar Óttarr: „Ég sem heilbrigðisráðherra skipulegg nú kannski ekki vaktir á spítalanum, það er yfirstjórn spítalans sem gerir það. Hún er á fullu í þeirri vinnu, alltaf að bæta skipulagið.“

Viðbúnaður á Landspítalanum hefur verið á efsta stigi síðustu daga. …
Viðbúnaður á Landspítalanum hefur verið á efsta stigi síðustu daga. Álagið er mikið. mbl.is/Golli

Gera þarf heildræna heilbrigðisstefnu

Ráðherrann bendir á að gera þurfi stefnu fyrir heilbrigðiskerfið í heild. Styrking Landspítalans verði hluti af þeirri vinnu. Sú vinna sé einnig forsenda þess að hægt sé að taka ákvarðanir um breytingar á heilbrigðiskerfinu.

Hann segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort samið verði við lækningamiðstöðina Klíníkina um rekstur fimm daga legudeildar. Klíníkin hefur þegar fengið starfsleyfi fyrir þessa þjónustu hjá Landlækni.  

Óttarr bendir á að Klíníkin hafi verið starfandi í nokkur ár á grundvelli samnings við Læknafélag Reykjavíkur. „Það er í sjálfu sér ekki á planinu nein breyting á því,“ segir hann.

Heilmikið af sérfræðiþjónustu sé veitt á stofum sérfræðinga, Klíníkin sé ein af þeim og þannig hluti af heilbrigðiskerfinu. Hann segist ekki ætla sér að fara í einhverjar „stórkostlegar breytingar“ á kerfinu.

„Það er á mína ábyrgð að taka ekki ákvarðanir sem veikja heilbrigðiskerfið heldur öfugt. Ég þarf að horfa til þess, sérstaklega varðandi einhverjar breytingar á því. Ég hef sagt og stend við það að mér finnst mikilvægt að fara í breiða vinnu um heilbrigðisstefnu áður en teknar eru einhverjar afdrifaríkar ákvarðanir. Það er fyrsta skrefið. [...] Ég myndi aldrei taka svona ákvarðanir nema að skoða málið frá öllum hliðum og með þeim sem að best til þekkja í faginu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert