Landlæknir getur ekki beitt dagsektum

Birgir Jakobsson landlæknir segir rangt að landlæknir geti beitt dagsektum.
Birgir Jakobsson landlæknir segir rangt að landlæknir geti beitt dagsektum. mbl.is/Hallur

Landlæknisembættið getur ekki beitt dagsektum eða öðrum sambærilegum úrræðum, líkt og fullyrt var í viðtali við Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlækni við Landspítalann, sem birt var í kvöldfréttum Stöðvar 2 á laugardag. Í viðtalinu, sem fjallar um bágborið ástand Landspítalans  spyr Tómas hvar eftirlitsaðilar með heilbrigðisþjónustunni séu staddir, þar á meðal landlæknir sem eigi að tryggja öryggi sjúklinga.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt var á vef Landlæknis í dag. Alvarlegt er „þegar yfirlækni og prófessor á háskólasjúkrahúsi landsmanna skortir þekkingu á hlutverkaskipan í heilbrigðisþjónustunni og fer með fleipur um þetta í fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Veitendur heilbrigðisþjónustu, í umræddu tilviki stjórnendur Landspítalans, bera ábyrgð á því að þjónustan sem veitt er standist kröfur um gæði og öryggi sjúklinga. Hlutverk landlæknis er lögum samkvæmt að hafa eftirlit með öryggi sjúklinga og gæðum þjónustunnar og fara fram á umbætur ef þörf er á.

Í því skyni getur landlæknir beint tilmælum til viðkomandi heilbrigðisstofnunar um umbætur. Landlæknir hefur því miður engin önnur úrræði, getur t.d. ekki beitt dagsektum eða öðrum úrræðum eins og fullyrt var í viðkomandi frétt.“

Þá hafi landlæknir í meira en eitt ár talað um nauðsynleg forgangsverkefni í heilbrigðiskerfinu sem geta stuðlað að gæðum og skilvirkni þess. Meðal þeirra forgangsverkefna sem séu á þeim lista sé að styrkja heilsugæsluna, reisa nýtt háskólasjúkrahús í nánum tengslum við Háskóla Íslands, efla sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni, efla sérfræðimönnun á Landspítalanum og fækka hlutastörfum og að setja reglur um aukastörf starfsfólks.

Sum þessara atriða snúi að stjórnendum Landspítalans, önnur að velferðarráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands. „Því miður verður að segjast eins og er að lítið hefur gerst í þessum málum, ef frá er talin viss hreyfing í rétta átt innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert