„Fullsnemmt að fullyrða“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra svaraði spurningum þingmanna í dag um breytingar …
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra svaraði spurningum þingmanna í dag um breytingar á heilsugæslu á landinu.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir að styrkja verði hlutverk heilsugæslunnar og tryggja aðgengi allra, óháð efnahag og búsetu. Við sérstakar umræður um heilsugæslu á landinu á Alþingi í dag sagði Óttarr að heilsugæslan stæði fyrir tveimur megináskorunum, annars vegar hvað varðar eðli þjónustunnar og hins vegar hvernig hún yrði fjármögnuð.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi umræðunnar en hann gagnrýndi þróun síðustu ára í flutningi sínum. „Heilsugæslunni hefur víða og lengi verið sinnt í skötulíki.“

Guðjón sagði horfurnar þó betri nú en áður, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, en að mikið mætti enn bæta á landsbyggðinni, þar sem vandamálum væri oft bjargað með skammtímalausnum.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/RAX

Guðjón spurði heilbrigðisráðherra hvernig og hvenær mætti búast við umbótum á þjónustu heilsugæsla á landsbyggðinni og tóku aðrir þingmenn undir þá spurningu.

Óttarr sagðist hvorki geta sagt til um hvernig né hvenær yrði unnið að bættri þjónustu heilsugæsla á landsbyggðinni, enda væri enn ekki hægt að segja til um árangur breytinganna á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég held að það sé nú kannski fullsnemmt að fullyrða hvenær það eigi að gerast. Við erum enn þá að upplifa og skoða árangurinn af þessum breytingum. […] Raunveruleikinn er víðast talsvert annar á landsbyggðinni [svo það er] ekki víst að sömu svör gildi þar og á höfuðborgarsvæðinu.“

Fjármögnunarkerfi nái yfir allar stöðvar

Ráðherra var einnig spurður út í greiðslufyrirkomulag heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu en samningar hafa verið gerðir við fjórar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

„Greiðslufyrirkomulagið gengur jafnt fyrir opinberar stöðvar höfuðborgarsvæðisins og þær sem eru einkareknar,“ sagði Óttar í svari sínu.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði einnig við viðræðurnar að fjármögnunarkerfi heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins næði yfir allar stöðvarnar, óháð rekstrarformi. Með þeim hætti mætti einfalda samanburð, gæða- og kostnaðareftirlit stöðvanna. 

Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu er ein 15 opinberra heilsugæsla á …
Heilsugæsla miðbæjarins við Vesturgötu er ein 15 opinberra heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Þá kölluðu Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, og Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, eftir skýrari stefnu í heilbrigðismálum á Íslandi og sagði Birgitta að aðgerðaáætlun vantaði sem hægt væri að fylgjast með.

Birgitta skoraði einnig á Óttar að fylgja stefnu Bjartrar framtíðar í heilbrigðismálum og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, skoraði á ráðherrann að „fara að heilbrigðislögum til að gera heilsugæsluna að því sem hún á að vera […], öflugur fyrsti viðkomustaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert