Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi í dag ummæli sem Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lét falla um þingkonur á fundi þingsins í dag.
Í umræðum um opinber fjármál á Alþingi í gær sagði Benedikt það áhugavert hverjir hefðu áhuga á umræðunum. „Það erum við Njáll Trausti [Friðbertsson, þingm. Sjálfst.fl.] og hinar hagsýnu húsmæður sem eru hérna í stórum hópum.“
Í umræðum um störf þingsins í dag sagðist Bjarkey hafa velt orðræðu ráðherrans fyrir sér en hún beindi því einnig til fjölmiðla að þeir hefðu átt að taka betur eftir. Þá spurði hún þingkonur stjórnarmeirihlutans hvort þeim fyndist þetta í lagi og hvort umbera ætti slíka orðanotkun í ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti og hefur skipað sérstakan jafnréttisráðherra.
Benedikt Jóhannesson hefur nú beðist afsökunar á orðræðunni á Facebook-síðu sinni en þar segist hann hafa áttað sig á mistökunum um leið og hann lét orðin falla.
„Um leið og ég heyrði mig segja þetta hugsaði ég: „Þú ert nú ekki alltaf jafn orðheppinn Benedikt.““