Deilt var um lóðamál í höfuðborginni á borgarstjórnarfundi í dag en þar lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um fjölgun lóða í Úlfarsárdal umfram „þá takmörkuðu fjölgun sem verður vegna breytinga á deiliskipulagi sem nú er í vinnslu.“
Það var Halldór Halldórsson sem mælti fyrir tillögunni en hann sagði „lóðaskortstefnu“ við lýði í Reykjavík. Hann sakaði meirihlutann um að hafa hafnað eða svæft allar tillögur minnihlutans til að taka á vandanum og sagði lóðaskort hafa leitt til hækkandi húsnæðisverðs, sem myndi enn hækka um 30% næstu tvö ár.
Halldór vísaði til niðurstöðu Arion banka, sem metur uppsafnaða íbúðaþörf á landsvísu um 8.000 íbúðir. Sagði borgarfulltrúinn að hlutdeild Reykjavíkur hlyti að vera um 3.000-4.000 íbúðir.
Í umræðum um málið sökuðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina meirihlutann um að telja ítrekað upp fyrirhuguð verkefni án þess að íbúðum fjölgaði.
Eftir að hafa verið beðinn um það af borgarstjóra að útskýra stefnu Sjálfstæðisflokksins, sagði Halldór að markmið flokksins samrýmdist aðalskipulagi sem gerði ráð fyrir 1.000 nýjum íbúðum á ári. Tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gengju út á það að grípa til aðgerða til að ná þessum markmiðum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði breiða sátt ríkja um að þétting byggðar væri höfuðmarkmið. Hann sagði upplegg Halldórs benda til þess að það væri vandamál borgarinnar að leysa allan húsnæðisvandann en benti á að borgin stýrði ekki uppbyggingahraða einkaaðila eða samtaka.
Borgarstjóri sagði viljayfirlýsingar liggja fyrir um byggingu 3.733 íbúða. Þá sagði hann að í ár gætu farið út á markaðinn lóðir fyrir um 2.000-2.500 íbúðir, sem væri metnaðarfullt í ljósi þess að í fyrra hefðu farið af stað framkvæmdir vegna um 900 íbúða.
Sögðu þeir borgarfulltrúar meirihlutans sem stigu í pontu að menn ættu ekki að einblína svo mikið á Úlfarsárdalinn. Halldór steig hins vegar í pontu í andsvari og ítrekaði m.a. að þrátt fyrir allt sem væri í farvatninu hefði ekkert gerst. Aukin uppbygging í Úlfarsárdal styddi vel við markmið borgarinnar.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir tók undir tillögu Sjálfstæðismanna fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina, og sagði m.a. fasteignafélög og banka eiga flestar lóðir á þéttingareitum.
Sagði hún minnihlutann hafa ítrekað bent á að það þyrfti að fjölga íbúðum í Úlfarsárdal, því það væri þar sem borgin ætti lóðirnar. Hún gagnrýndi harðlega hversu fáum lóðum hefði verið úthlutað vegna byggingar fjölbýla stærri en fimm íbúðir síðustu ár.
Sagði Guðfinna að samkvæmt Þjóðskrá hefði íbúðum í Reykjavík fjölgað um 1.600 síðustu sjö ár og ef ekki stæði til að úthluta lóðum fyrir litlar íbúðir myndi það taka borgina mörg ár að „ná í skottið á sér.“
Tillaga Sjálfstæðismanna í heild:
„Borgarstjórn samþykkir að fjölga lóðum í Úlfarsárdal umfram þá takmörkuðu fjölgun sem verður vegna breytinga á deiliskipulagi sem nú er í vinnslu. Er þetta gert til að bregðast við alvarlegum lóðaskorti í Reykjavík. Hafist verði handa nú þegar við undirbúning þessa verkefnis til að Reykjavíkurborg geti uppfyllt þá mikilvægu grunnskyldu gagnvart íbúum sínum að útvega lóðir í samræmi við þörf.“