Andlát: Ólöf Nordal

Ólöf Nordal.
Ólöf Nordal. mbl.is/Árni Sæberg

Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður og fyrrverandi ráðherra, lést í morgun á Landspítalanum eftir erfið veikindi. Hún var fimmtug að aldri.

Ólöf fæddist hinn 3. desember 1966. Foreldrar hennar eru Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri, fæddur 11. maí 1924 og Dóra Guðjónsdóttir Nordal, píanóleikari og húsfreyja, fædd 28. mars 1928.

Ólöf ólst upp í Laugarásnum í Reykjavík og var næstyngst af sex systkinum, þeim Beru, Sigurði, Guðrúnu, Salvöru og Mörtu. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986. Ólöf lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1994. Þá hlaut hún MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002.

Ólöf starfaði lengi við lögfræðistörf og varð deildarstjóri í samgönguráðuneytinu árið 1996. Þremur árum síðar hóf hún störf hjá Verðbréfaþingi Íslands og var þar til ársins 2001, jafnhliða því sem hún sinnti stundakennslu í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst frá 1999-2002. Hún varð deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar skólans frá 2001-2002.

Þaðan lá leið Ólafar til Landsvirkjunar þar sem hún var yfirmaður heildsöluviðskipta frá 2002 til 2004. Frá 2004 var hún framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK og gegndi því þar til rafmagnssala var tekin inn í sérstakt fyrirtæki, Orkusöluna árið 2005. Varð hún þá framkvæmdastjóri hennar til ársins 2006.

Ólöf fékk fljótt áhuga á stjórnmálum og gekk ung í Sjálfstæðisflokkinn. Hún varð formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi árið 2006 og gegndi því starfi til ársins 2009. Þá var Ólöf einnig formaður Spes, hjálparsamtaka vegna byggingar barnaþorpa í Afríku.

Ólöf var kjörin á Alþingi árið 2007 sem þingmaður Norðausturkjördæmis og tók sæti í allsherjarnefnd 2007-10 og umhverfisnefnd þingsins frá 2007-2009. Þá var hún varaformaður samgöngunefndar frá 2007-2009.

Árið 2009 bauð Ólöf sig fram fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Á því kjörtímabili sat hún meðal annars í fjárlaganefnd, kjörbréfanefnd, sérnefnd um stjórnarskrármál, utanríkismálanefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins.

Ólöf var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans 2010 og gegndi því embætti til ársins 2013. Sama ár hætti Ólöf í stjórnmálum og gerðist formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Árið 2014 greindist hún með krabbamein og hóf meðferð við henni.

Fjarvera Ólafar úr stjórnmálum varð skemmri en hún hugði, því að 4. desember 2014 var hún skipuð innanríkisráðherra utan þings, og gegndi því embætti fram til 11. janúar á þessu ári. Árið 2015 var hún aftur kjörin sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Ólöf bauð sig fram að nýju til Alþingis í kosningunum síðasta haust, og var kjörin 1. þingmaður Reykjavíkur suður. Þegar ný ríkisstjórn var mynduð í síðasta mánuði var hún kjörin í velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins.

Eftirlifandi maki Ólafar er Tómas Már Sigurðsson forstjóri fæddur 1. febrúar 1968. Foreldrar hans eru Herdís Tómasdóttir, f. 26.5.1945, og Sigurður Kristján Oddsson, f. 22.1.1940, d. 22.8.2009. Börn þeirra Ólafar eru Sigurður, (f. 1991), Jóhannes, (f. 1994), Herdís (f.1996), og Dóra (f. 2004).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert