Húsmæðraorlof verði afnumið

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um afnám laga um orlof húsmæðra. Fyrsti flutningsmaður er Vilhjálmur Árnason en frumvarpið hefur verið lagt fram fjórum sinnum áður á undanförnum árum en ekki náð fram að ganga. Bent er á í greinargerð að Alþingi hafi fyrst sett lög um orlof húsmæðra árið 1960 en gildandi lög séu frá árinu 1972.

„Lögin eru sett í þeim anda sem ríkti þá og miðast við þjóðfélag þess tíma. Sem betur fer hefur ýmislegt breyst til batnaðar, margt hefur áunnist í jafnréttisbaráttu og ljóst má vera að lögin eru í andstöðu við jafnréttissjónarmið. Það er því skylda Alþingis að afnema þau strax,“ segir í ennfremur en bráðabirgðaákvæði er í frumvarpinu um að sveitafélög geti áfram greitt húsmæðraorlof fram í ársbyrjun 2019 sé nægjanlegt fé til staðar í orlofssjóðum.

„Ekki má gera lítið úr þeim félagslegu áhrifum sem orlofsferðir húsmæðra hafa haft fyrir þær konur sem þær hafa farið. Verði lögin afnumin geta orlofsnefndirnar haldið áfram að skipuleggja ferðir kjósi þær svo. Aðkoma sveitarfélaganna yrði valkvæð og það sem mestu máli skiptir, íbúum væri ekki mismunað á grundvelli kynferðis,“ segir áfram í greinargerðinni.

Meðflutningsmenn Vilhjálms eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Hildur Sverrisdóttir og Teitur Björn Einarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka