Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu trúfélagsins Zuism um rúmar fimm milljónir króna vegna vangoldinna sóknargjalda. Þá var því hafnað að félagið fengi að hækka kröfu sína upp í rúmar 32 milljónir, við upphaf aðalmeðferðar málsins.
Ekki er um að ræða sömu aðila og auglýstu um haustið 2015 að þeir sem myndu ganga í félagið fengju sóknargjöld sín endurgreidd, heldur þá sem fóru með stjórn félagsins áður.
Kröfðust þeir sóknargjaldanna sem söfnuðust höfðu eftir að um 3.200 manns gengu í félagið. Nemur greiðslan frá ríkinu 10.800 krónum fyrir hvern meðlim á ársgrundvelli, og því miklar fjárhæðir í tafli, eða um 35 milljónir króna fyrir síðasta ár.
Fram kemur í dómi réttarins að félagið hafi verið stofnað í apríl 2013, skráð hjá fyrirtækjaskrá og einnig sem trúfélag hjá innanríkisráðuneytinu. Tæpu ári síðar, í febrúar 2014, hafi skráður forstöðumaður þess tilkynnt að hann væri hættur sem slíkur. Sagðist hann ekki vita hver færi með stjórn félagsins.
Sýslumaðurinn hafi þá talið að félagið uppfyllti ekki lengur skilyrði til þess að vera skráð trúfélag. Í kjölfar auglýsingar þess efnis í Lögbirtingablaðinu hafi Ísak Andri Ólafsson, sá sem skráður er í dag á vefnum zuistar.is sem stjórnarformaður félagsins, gefið sig fram við sýslumanninn.
„Hann kvaðst fara fyrir hópi manna sem hefðu reynt að starfa í félaginu og vildu halda starfsemi þess áfram,“ segir í dómnum.
Svo fór að Ísak Andri var skráður forstöðumaður félagsins, 1. júní 2015, eftir að hann hafði sent sýslumanni gögn þar að lútandi.
Stefnandinn í málinu kvaðst fyrir dómi hafa fengið upplýsingar um skráningu Ísaks Andra sem forstöðumanns í lok árs 2015.
Þann 16. desember 2015, sendi hann erindi til sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra og krafðist þess að skráning á forstöðumanni félagsins yrði leiðrétt þannig að Ágúst Arnar Ágústsson, sem áður var formaður stjórnar félagsins, yrði skráður forstöðumaður.
Vikurnar fyrir þá dagsetningu höfðu fjölmargir gengið í félagið, enda vakti boð nýrra stjórnenda um endurgreiðslu sóknargjalda töluverða athygli hér á landi, og jafnvel utan landsteinanna.
Þann 5. febrúar 2016 sendi Ísak Andri bréf til Fjársýslu ríkisins, þar sem hann bað þess að greiðslu sóknargjalda til stefnanda yrði frestað þar til skrifleg ósk þar að lútandi bærist frá félaginu.
„Kvað hann ástæðu beiðninnar vera þá að ekki hefði tekist að greiða úr málum er vörðuðu rekstrarfélag trúfélagsins. Stjórnarmenn í stefnanda tengdust ekki lengur stjórn hins viðurkennda trúfélags Zuism,“ segir í dómnum.
Í kjölfarið hafi stefnandi sent Fjársýslu ríkisins tölvupóst, og krafist þess að sóknargjöldin yrðu greidd sér. Erindinu var hafnað með tölvupósti 15. sama mánaðar, þar sem skráður forstöðumaður félagsins, Ísak Andri, hefði óskað þess að gjöldin yrðu ekki greidd.
Brá stefnandinn þá á það ráð að kæra ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi eystra, um að skrá Ísak Andra sem forstöðumann félagsins. Með úrskurði ráðuneytisins eftir höfðun málsins, eða þann 12. janúar síðastliðinn, var skráning Ísaks Andra felld úr gildi. Kröfu stefnanda, um að skrá Ágúst Arnar sem forstöðumann, var hins vegar vísað frá, og til umfjöllunar hjá sýslumanni.
„Byggði niðurstaða ráðuneytisins á því að málið hefði ekki verið nægjanlega upplýst þegar sýslumaður tók ákvörðun um að skrá Ísak Andra sem forstöðumann þar sem hann hafi ekki leitað upplýsinga hjá skráðum stjórnarmönnum félagsins áður en hann tók ákvörðun um að birta auglýsinguna í Lögbirtingablaðinu,“ segir í dómnum.
Eftir að skráning Ísaks Andra var felld úr gildi sé því nú enginn skráður forstöðumaður í félaginu, en sýslumaður hafi til meðferðar kröfu stefnanda um skráningu Ágústs Arnars, og sömuleiðis hvort félagið uppfylli skilyrði þess að vera skráð trúfélag.
Segir að lokum í dómnum að félagið hafi ekki fært sönnur fyrir því að eiga rétt á greiðslum sóknargjalda. Var ríkið því sýknað af kröfum þess. Málskostnaður var þó látinn falla niður.