„Við höfum oft tilhneigingu til að sjá veröldina í mjög dökkum litum og halda um leið að heimsendir sé að nálgast,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á árlegu viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands.
„Stundum er það þannig á vettvangi stjórnmála, að það sækja að manni einstaka sinnum þessar hugsanir, vegna þess hve neikvæðnin getur oft verið yfirþyrmandi.“
Bjarni sagðist muna eftir sjálfum sér á tímum kalda stríðsins með Utangarðsmenn á fóninum, „Þið munið öll deyja“. Mikið óöryggi hefði verið í heiminum þá og menn ekki vitað hvert stefndi.
Bjarni benti á hvað hefði batnað síðan þá. Minntist hann orða Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem Obama sagðist segja við öll þau ungmenni sem sæktu hann heim í Hvíta húsið.
„Ef þú gætir valið hvaða tíma sem er í mannkynssögunni til að fæðast, þú vissir ekki af hvaða kyni eða kynþætti þú værir, en þú vildir hafa kost á sem mestum lífsgæðum, þá myndirðu velja daginn í dag,“ sagði Bjarni.
„En þegar við horfum fram á veginn þá er mikilvægt að átta sig á því hvernig heimurinn er að breytast.“
Sagði hann gríðarlegar breytingar eiga sér stað, hefðbundinn iðnaður ætti í vök að verjast og ljóst að vélmennavæðing væri í vændum.
Sérstök þörf væri því fyrir skýra framtíðarsýn og sterka forystu. Sagðist hann telja að þróun í stjórnmálum Evrópu og Bandaríkjanna ætti vissar rætur að rekja til þess að fólk viti ekki hvernig takast eigi á við vandamál framtíðarinnar.
„Allt er breytingum háð og leiðin fram á við er að sætta sig við það. Að fjárfesta í breytingunum.“
Benti hann þá á að fyrir tíu árum hefði Viðskiptaráð velt upp þeirri spurningu „hvernig þreföldum við landsframleiðsluna frá árinu 1990 fyrir árið 2015?“
Bjarni sagði það markmið hafa náðst „þrátt fyrir öll áföllin sem við urðum fyrir. Við höfum fengið búhnykki, en við höfum líka lagað okkur að breyttum aðstæðum.“
„Hver hefði trúað því, þegar við vorum að leggja á gjaldeyrishöftin og glíma við úrlausn allra slitabúanna í kjölfar hrunsins, að við myndum búa við þá stöðu sem við gerum nú, nokkrum árum síðar. Að minnsta kosti kom enginn úr þessum sal til mín og spáði því,“ sagði Bjarni við hlátur ráðstefnugesta.
Sagði hann hugvitsútflutning lykilinn að árangri, þegar horft væri fram á veginn. Tvöfalda þyrfti útflutningsverðmæti á næstu fimmtán árum. Eftirspurnin væri næg, til dæmis þegar litið væri til Kína.
Næst vék Bjarni máli sínu að loftslagsmálum.
Vísaði hann til orða olíumálaráðherra Sádi-Arabíu, um að olíuöldinni yrði lokið áður en olían yrði uppurin. Eins hafi það ekki verið kolaskortur sem leiddi til þess að kolaskýið yfir Reykjavík hvarf, heldur framsýni og vilji þegar menn komu Hitaveitu Reykjavíkur á fót.
„Steinöldinni lauk ekki vegna skorts á steinum.“
Tækifæri væru í þessum efnum hér á landi, meðal annars í að rafvæða bílaflota landsins. Sagði hann það alvörusjálfbærni í orkumálum.
„Þegar sjálf orkan sem notuð er til að knýja bílinn er sjálfbær.“
Að lokum talaði Bjarni um þann stöðugleikasjóð sem getið er í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, en hann á að byggjast upp af tekjum auðlinda Íslands og vera til taks sem sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.
„Ég finn fyrir þverpólitískum stuðningi við þetta verkefni og mun stefna saman sérstökum vinnuhóp um þetta núna fyrir helgi.“