Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, minntist Ólafar Nordal, alþingismanns og fyrrverandi ráðherra, við upphaf þingfundar í dag. Ólöf lést á Landspítalanum í gærmorgun eftir erfiða baráttu við krabbamein.
„Héðan frá Alþingi eru fjölskyldu hennar sendar innilegar samúðarkveðjur,“ sagði Unnur Brá þar sem hún fór yfir stjórnmálaferil Ólafar.
Ólöf bauð sig fram að nýju til Alþingis í kosningunum síðasta haust og var kjörin 1. þingmaður Reykjavíkur suður. Þegar ný ríkisstjórn var mynduð í síðasta mánuði var hún kjörin í velferðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins.
„Sannarlega verður það skarð sem Ólöf skildi eftir sig vandfyllt,“ sagði Unnur og þingmenn risu úr sætum og minntust Ólafar.