Stefnt að sölu eignarhluts ríkisins í bönkunum

Samkvæmt drögum að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki er stefnt að …
Samkvæmt drögum að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki er stefnt að sölu á eignarhlut ríkisins í íslensku bönkunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur útbúið drög að uppfærðri eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtæki og óskar nú eftir umsögnum um stefnuna.

Samkvæmt drögunum er m.a. stefnt því að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka „þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi.“ Þá er stefnt að því samkvæmt drögunum að ríkið eigi áfram verulegan eignarhlut í Landsbankanum, eða um 34-40%, en eignarhlutur ríkisins verði að öðru leyti seldur á næstu árum. Loks er stefnt að því að selja allan eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands „enda ekki markmið ríkisins að vera eigandi sparisjóðsins til langframa.“

Í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins segir að eigandastefna fyrir fjármálafyrirtæki hafi verið sett fram árið 2009 og tók hún þá til nýju viðskiptabankanna þriggja og nokkurra sparisjóða. Gildir sú stefna nú fyrir fjögur fjármálafyrirtæki líkt og fyrr segir en ríkið á 98,2% eignarhlut í Landsbankanum hf., 100% eignarhlut í Íslandsbanka hf., 13% eignarhlut í Arion banka hf. og 49,5% í Sparisjóði Austurlands hf.  

Gjörbreytt staða í ríkisfjármálum

Segir í tilkynningunni að eigandastefnan hafi endurspeglað stöðuna „eftir endurreisn fjármálakerfisins og aðstæður í ríkisfjármálum og á fjármálamarkaði á þeim tíma.“ Staða hagkerfisins og ríkisfjármála sé nú aftur á móti gjörbreytt og það til hins betra. „Einnig hefur eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum tekið grundvallarbreytingum og á ríkið nú meirihluta bankakerfisins. Þá hefur Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gefið út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti ríkisfyrirtækja,“ segir ennfremur í tilkynningunni. Því þyki tímabært að uppfæra eigandastefnuna.

Þá falla niður samkvæmt drögunum ýmsar áherslur sem mótaðar voru í kjölfar endurreisnar fjármálakerfisins en í stað þeirra verði lögð áhersla á að fjármálafyrirtæki veiti viðskiptavinum skilvirka þjónustu og tryggi „ásættanlega arðsemi.“ Þá er skerpt á ákvæðum um stjórnarhætti, upplýsingagjöf, gagnsæi og fagleg vinnubrögð og undirstrikuð sú skylda stjórna „að fara að ákvæðum eigandastefnunnar og upplýsa eiganda í þeim tilvikum sem slíkt er ekki talið hægt eða ef stjórn verður þess áskynja að ekki hefur verið farið eftir þeim,“ að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.

Umsagnarfrestur er til og með 10. mars 2017 og óskast umsagnir sendar á postur@fjr.is. Nánar um drög að eigandastefnu má lesa á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert