„Þessi skýrsla mun ekki leysa verkfallið. En hún er að mínu mati gagnlegt innlegg og upplegg til skemmri en ekki síður til lengri tíma umræðu,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á blaðamannafundi í dag þar sem hún kynnti skýrslu sem geymir mat á þjóðhagslegum kostnaði af yfirstandandi verkfalli sjómanna. Sagði Þorgerður að skýrslan hefði legið fyrir um klukkustund áður en hún hefði viljað birta hana sem fyrst.
„Hugsunin með þessu er vissulega sú að stjórnvöld átti sig á því gríðarlega þjóðfélagslega tapi sem verður af verkfalli sjómanna,“ sagði Þorgerður. En hún vildi einnig að eftirmenn hennar í stóli ráðherra sjávarútvegsmála, hverjir sem þeir yrðu, hefðu ákveðin tæki og tól til þess að kynna samningsaðilum í framtíðinni, sjómönnum og útgerðarmönnum, hvað það kostaði samfélagið að kjaradeilur þeirra væru dregnar á langinn. „Þeirra er ábyrgðin og þeir verða einfaldlega í framtíðinni að vita hvað það kostar samfélagið að þeir komi sér ekki að því að semja.“
Verkfallið hefði mjög mikil áhrif og hver dagur yrði dýrari og dýrari fyrir samfélagið. Áhrifin væru ekki síst úti á landsbyggðinni á ákveðnum svæðum. „Það eru þessar dreifðu byggðir sem eru að verða fyrir miklum búsifjum í þessum erfiðleikum sem raun ber vitni. Ég hef verið í stöðugu sambandi við deiluaðila og ríkissáttasemjara síðustu vikurnar. Símkostnaðurinn hækkað mikið. Það er alveg ljóst að deiluaðilar hafa að mínu mati reynt að nálgast þetta á ábyrgan hátt.“ Deiluaðilar hafi ekki viljað afskipti ríkisins af deilunni.
Þorgerður sagðist binda vonir við það að árangur næðist í deilunni á næstunni þótt ekkert miðaði í augnablikinu. Benti hún á að allur launakostnaður ríkisins á ársgrundvelli væri um 160 milljarðar króna en í sjávarútvegi væri hann 80 milljarðar. „Þannig að þetta er ekkert gamanmál.“ Þorgerður lagði að lokum áherslu á að ekki kæmi til greina af hennar hálfu að sett yrðu lög á verkfall sjómanna. „En ég undirstrika að af minni hálfu þá kemur ekki til greina að setja lög á verkfallið. Það bara kemur ekki til greina.“ Það væri þeirra sem væru við samningaborðið að klára kjarasamninga sem allra fyrst.
Stefnt væri að því að í lok ársins yrði tekin saman önnur skýrsla um raunverulegan og endanlegan kostnað af verkfalli sjómanna þegar allar tölur væru komnar í hús „til þess að framtíðin geti gengið að því með vissu, tölfræði, hvað það þýði ef menn koma sér ekki að samningaborðum og klára málið. Og það er þeirra sem þar sitja, þeirra er ábyrgðin.“