Ef þetta eru lögin þarf að breyta þeim

Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó.
Andri Snær Magnason rithöfundur hitti Amir í Mílanó. Skjáskot/Facebook

Ef þetta var framkvæmt samkvæmt lögum þarf að breyta lögunum, segir Andri Snær Magnason rithöfundur um brottflutning Amir Shokrgozar, íransks hælisleitanda, sem var fluttur úr landi til Ítalíu 3. febrúar.

Andri Snær var staddur í Mílanó þegar neyðarkall barst á Facebook vegna Amirs, sem var þar allslaus á götunni; „bókstaflega evrulaus og pappírslaus í stórborg í janúar,“ eins og Andri orðaði það í Vikulokunum á RÚV.

Rithöfundurinn sagði sögu Amirs þannig að þegar honum hefði verið neitað um hæli hefði hann fengið taugaáfall og lagst inn á geðdeild. Hann hafði ekki sofið í viku. Þegar hann útskrifaðist hefði lögreglan handtekið hann og vildi Andri Snær meina að einhverri hörku hefði verið beitt, þar sem stórséð hefði á Amir, sem hefði verið marinn á höfði og líkama.

Í haldi lögreglu hefði Amir verið berháttaður þar sem talin var hætta á að hann fremdi sjálfsvíg. Í framhaldinu hefði hann verið fluttur úr landi, handjárnaður og í fylgd tveggja lögreglumanna.

Að sögn Andra, sem hitti Amir tvisvar úti í Mílanó en þekkir hann ekki að öðru leyti, var Amir niðurbrotinn þegar hann kom af geðdeildinni en í stað þess að sleppa honum í faðm íslensks kærasta síns og vina, hefði hann verið fluttur út án þess að þeir fengju neinar upplýsingar um brottflutninginn og skilinn eftir án nokkurra bjargráða.

Þegar neyðarkallið barst var Amir peningalaus og án aðseturs. Þá var síminn hans að verða rafmagnslaus. Andri gat að eigin sögn tekið út fyrir hann peninga og hann fékk húsaskjól hjá stúlku. Sú reyndist „hústökustúlka“, líkt og Andri orðaði það, og einhverju síðar var húsnæðið rýmt af lögreglu.

Andri Snær Magnason.
Andri Snær Magnason. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hann hafði hlutverk á Íslandi

Andri segir allt þetta óskiljanlegt. Amir hafi fengið húsaskjól hjá ítalskri blaðakonu sem tók viðtal við hann en Ítalir botni ekki í málinu. Hælisleitandinn hafi verið í sjálfboðavinnu á Íslandi, sótt bænahóp og átt íslenskan kærasta og tengdafjölskyldu. Úti bíði hans fordómar og ofbeldi, og jafnvel dauði. Hann sé í tveimur áhættuhópum sem kristinn og samkynhneigður.

Amir var sendur út til Ítalíu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar en við komuna til Evrópu voru fyrst tekin fingraför af honum á Ítalíu. Þaðan ferðaðist hann til Svíþjóðar þar sem hann bjó í nokkur ár, en ákvað að fara til Íslands þegar flóttamannastraumurinn til álfunnar jókst.

Andri segir ljóst að Amir sé ekki vært í Íran, þar sem faðir hans var myrtur af klerkastjórninni árið 1984. Hann hefur fengið þær upplýsingar á Ítalíu að málið hans þar verði tekið fyrir 7. júlí. „Hvað á hann að gera þangað til?“ spurði Andri Snær í samtali við Helga Seljan.

Rithöfundurinn bendir á að íslenskum yfirvöldum beri ekki að senda neinn til baka samkvæmt Dyflinarreglugerðinni og segist telja að Íslendingar vilji ekki að svona sé komið fram við fólk. Ef meðferðin á Amir hafi verið lögum og reglum samkvæmt þurfi að breyta þeim.

Þá segir hann Ítali telja mál Amir nokkurs konar prófmál; ef harðlínustjórnir komist til valda víðs vegar í Evrópu og fari að senda fólk til „fyrsta lands“ í stórum stíl á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar sé það bein ógn við Ítalíu, þ.e. ef fólk verður sent þangað til að hafast við afskipta- og bjargarlaust á götunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert