Kannanir um kynbundinn launamun „algjörlega marklausar“

Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi.
Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor við Strathclyde-háskóla í Skotlandi. Ljósmynd/Bjarni Eiríksson

„Ég held alls ekki fram að eng­inn kyn­bund­inn launamun­ur sé til staðar. Hins veg­ar virðast ekki vera til nein áreiðan­leg gögn sem sýna fram á slíkt með sann­fær­andi hætti á Íslandi,“ seg­ir Ein­ar Stein­gríms­son, stærðfræðipró­fess­or við Str­at­hclyde-há­skóla í Skotlandi. 

„All­ar kann­an­ir stétt­ar­fé­laga sem ég hef séð síðustu árin eru al­ger­lega mark­laus­ar,“ seg­ir Ein­ar í sam­tali við mbl.is. Svar­hlut­fall í könn­un­um sé sjald­an mikið yfir 50% sem þýði að ómögu­legt sé að vita hvort svör­in end­ur­spegli það sem um heild­ina gild­ir.

Seg­ir Ein­ar að meira að segja í vönduðum könn­un­um Hag­stofu Íslands og Fé­lags­vís­inda­stofn­un­ar Há­skóla Íslands hafi „óút­skýrði launamun­ur­inn“ verið lít­ill og þar séu slegn­ir mikl­ir varnagl­ar. „Það er úti­lokað að vera viss um að tekið hafi verið til­lit til allra breyta sem skipta máli, auk þess sem hlut­lægt mat á fram­lagi starfs­manna með sam­bæri­lega starfs­lýs­ingu er nán­ast ómögu­legt,“ út­skýr­ir Ein­ar.

„Töl­fræðilegt krafta­verk“ ef það hall­ar bara á kon­ur

Bend­ir Ein­ar á að í ný­legri út­tekt vel­ferðarráðuneyt­is­ins komi fram að kon­ur á aldr­in­um 18-27 ára í op­in­bera geir­an­um séu að meðaltali með hærri laun en karl­ar. „Get­ur verið að bar­átt­an fyr­ir launa­jafn­rétti milli kynja hafi þegar skilað þeim ár­angri sem hægt er að ná með sér­stök­um aðgerðum af hálfu op­in­berra aðila?“ spyr Ein­ar.

Kveðst hann ekki draga það í efa að launam­is­mun­un á grund­velli kyn­ferðis þekk­ist og ekki komi sér á óvart í slík­um til­fell­um að oft­ar halli á kon­ur en karla. „Slíkt er alltaf ólíðandi og ólög­legt. Nán­ast all­ir sem tala um kyn­bund­inn launamun sem staðreynd virðast ganga út frá því að bara halli á kon­ur,“ seg­ir Ein­ar en svo sé ekki raun­in.

Seg­ir hann að mun­ur­inn sem haldið er fram að sé til staðar sé það lít­ill að það væri „töl­fræðilegt krafta­verk“ ef það hallaði alltaf á kon­ur. Velt­ir hann því upp þeirri spurn­ingu hvort gera megi þá ráð fyr­ir því að mis­mun­un sem körl­um er í óhag verði leiðrétt þar sem „þeir sem fjalla um þessi mál tala all­ir eins og alltaf halli á kon­ur?“ 

„Það er von­laust verk að ætla að leiðrétta meint­an mun með al­menn­um aðgerðum þegar ekki er um að ræða kerf­is­bundna mis­mun­un; það er bara hægt að leiðrétta mis­mun­un gagn­vart til­greind­um ein­stak­ling­um,“ seg­ir Ein­ar.

Margt slá­andi við umræðuna

Þykir hon­um þó hvað mest slá­andi við umræðuna að þeir sem helst tali um þenn­an óút­skýrða launamun kynj­anna og þeir sem hafi til þess völd og seg­ist ætla að gera eitt­hvað í mál­inu, séu ekki endi­lega að vinna að því að hækka laun kvenna þar sem það er hægt. Hjá borg­inni virðist til að mynda mik­il vinna hafa verið lögð í að gera jafn­rétt­isút­tekt­ir og áætlan­ir en út­tekt­ir á launamun kynja hafi al­mennt leitt í ljós lít­inn mun nema hjá þeim „ör­fáu sem lík­lega eru með hæstu laun­in“.

„Jafn­rétt­is­frömuðunum í stjórn borg­ar­inn­ar virðist sem sé ekki hafa dottið í hug að hægt væri að stór­auka launa­jafn­rétti með því að hækka laun leik­skóla­kenn­ara sem nán­ast all­ir eru kon­ur og sem al­mennt virðist álitið að séu á of lág­um laun­um. Ekki er held­ur minnst neitt á slík­ar aðgerðir í nú­gild­andi aðgerðaáætl­un Reykja­vík­ur­borg­ar í jafn­rétt­is­mál­um,“ seg­ir Ein­ar.

Annað sem Ein­ar seg­ir slá­andi við slík­ar aðgerðaáætlan­ir er að nán­ast bara sé fjallað um kynja­jafn­rétti en varla minnst á launa­jafn­rétti al­mennt. Í til­felli aðgerðaáætl­un­ar Reykja­vík­ur­borg­ar sé á því aðeins ein und­an­tekn­ing sem fjalli um að gerð verði út­tekt á hugs­an­leg­um launamun milli fólks af er­lend­um upp­runa og Íslend­inga. „Öll mis­mun­un í laun­um á ómál­efna­leg­um for­send­um, ekki bara vegna kyns, er ólög­leg.  Samt er eins og yf­ir­völd­um detti ekki í hug að hafa þurfi áhyggj­ur af slíkri mis­mun­un nema bara varðandi kyn,“ seg­ir Ein­ar.

Vara­söm skekkja þegar gögn­um er slegið sam­an

„Ég er alls eng­inn sér­fræðing­ur á þessu sviði. Ég er stærðfræðing­ur og vinn við stærðfræði en maður þarf enga stærðfræði- eða töl­fræðilega mennt­un til þess að sjá ruglið í mörg­um af þess­um staðhæf­ing­um,“ seg­ir Ein­ar. „Maður þarf enga mennt­un til þess að sjá að könn­un þar sem að svar­hlut­fallið er 50% hún get­ur bara aldrei sagt nokk­urn skapaðan hlut,“ seg­ir Ein­ar og vís­ar þar til skoðanakann­ana margra stétt­ar­fé­laga um launam­is­rétti.

Þá bend­ir Ein­ar á að við gerð slíkra kann­ana beri að var­ast þversagna­kennda fyr­ir­bærið Simp­sons-Para­dox svo­kallaða en þess kunni að gæta í könn­un­um um launam­is­rétti. „Það snýst um þessa furðulegu staðreynd að það er hægt að vera með tvö fyr­ir­tæki A og B, þar sem kon­ur eru með hærri laun en karl­ar að meðaltali í báðum fyr­ir­tækj­un­um. En ef gögn­un­um er slegið sam­an, þá eru allt í einu karl­arn­ir komn­ir með hærri laun að meðaltali en kon­urn­ar,“ út­skýr­ir Ein­ar.

Vill hann þó ekki halda því fram að alltaf komi fram slík skekkja, en um leið og gögn­um frá mörg­um stofn­un­um eða fyr­ir­tækj­um sé slegið sam­an geti maður átt það á hættu að draga rang­ar álykt­an­ir. „Í stuttu máli þá eru þessi gögn miklu vandmeðfarn­ari og það er miklu erfiðara að draga álykt­an­ir sem hægt er að treysta en flest­ir virðast ætla,“ út­skýr­ir Ein­ar.

Launam­is­ræmi mögu­lega að hverfa með nýrri kyn­slóð

Loks tel­ur Ein­ar margt benda til þess að launamun­ur kynj­anna sé smátt og smátt að hverfa. „Það er alla vega þróun í átt frá því sem var og það er mjög aug­ljóst enn þá að launamun­ur er gríðarlega mik­ill körl­um í hag í efri ald­urs­hóp­un­um og svo minnk­ar hann eft­ir því sem neðar dreg­ur,“ seg­ir Ein­ar.

„Auðvitað er launam­is­rétti al­gjör­lega ólíðandi og það er sem bet­ur fer ólög­legt. Og það þarf bara að taka á því alls staðar þar sem hægt er að sýna fram á að það sé til staðar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert