Skiptar skoðanir um hinsegin elliheimili

Þjóðfundur hinsegin fólks var vel sóttur í dag.
Þjóðfundur hinsegin fólks var vel sóttur í dag. mbl.is/Golli

Hátt í hundrað manns mættu á þjóðfund hinsegin fólks í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Á fundinum var fólki skipt upp á ellefu mismunandi málefnaborð þar sem rædd voru ólík verkefni og hugmyndir um framtíð hinsegin samfélagsins. 

„Hvert borð valdi síðan það verkefni sem það telur mikilvægast að vinna að en við erum núna búin að safna saman öllum hugmyndunum sem stjórnin mun fara í að vinna úr og setja í þá forgangsröð sem fundargestir lögðu upp með,“ segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, framkvæmdastýra Samtakanna 78.

Á fundinum var mikið rætt um stuðning við hinsegin hælisleitendur og á honum gekk undirskriftalisti þar sem þess er krafist að hælisleitandinn Amir Shokrgoz­ar snúi aftur til landsins. „Ég held að flestir á fundinum hafi skrifað undir þennan lista og líka Björn Blöndal, formaður borgarráðs,“ segir Helga.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hélt ræðu á fundinum.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, hélt ræðu á fundinum. mbl.is/Golli

Styrkja þarf stöðu hinsegin fólks í Bandaríkjunum

Þá var einnig rætt um hinsegin kynfræðslu og mikilvægi þess að fræða bæði skóla, fyrirtæki, stofnanir og fagfólk. „Það var einnig rætt um það að vinna gegn fordómum innan hinsegin samfélagsins jafnt sem utan þess,“ segir Helga. Einnig komu upp hugmyndir um alþjóðlegt samstarf og hugmyndir um að styrkja stöðu hinsegin fólks í Bandaríkjunum sem býr margt við ömurlegar aðstæður núna að sögn Helgu.

„Það kom alveg ofboðslega mikið af flottum hugmyndum. Það var einnig kallað eftir fleiri viðburðum fyrir hinsegin fólk eins og íþróttum fyrir transfólk þar sem kyn skiptir ekki máli, ekki upp á búninga, þátttöku eða fleira. Þetta er eitthvað sem vantar algjörlega,“ segir Helga.

Við eitt málefnaborð sat eldra hinsegin fólk en að sögn Helgu voru skiptar skoðanir um það hvort fólk vildi fá hinsegin elliheimili eða ekki hingað til lands. „Þar kom einmitt líka fram vilji fyrir því að samtökin taki að sér að halda utan um sjálfsprottið félagsstarf fyrir fólk á öllum aldri eins og gönguferðir, hannyrðakvöld, ljóðakvöld og fleira,“ segir Helga.

Helga er afar sátt við fundinn í heild sinn og …
Helga er afar sátt við fundinn í heild sinn og segir skemmtilegt að sjá hversu breitt kynslóðabil sótti hann. mbl.is/Golli

Spennt fyrir samstarfi við nýjan ráðherra 

Á fundinn mætti Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, en Helga segir að samtökin bindi miklar vonir við að hann muni taka jafnréttið út fyrir kynjajafnrétti. „Hann talaði um jafnrétti á breiðum grundvelli og mikilvægi þess að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum og að mæta honum. Við erum mjög spennt fyrir samstarfi við þennan nýja ráðherra,“ segir Helga.

Helga er afar sátt við fundinn í heild sinn og segir skemmtilegt að sjá hversu breytt kynslóðabil sótti hann og hversu margir mættu og tóku þátt sem hafa ekki áður tekið þátt í starfsemi Samtakanna 78. „Það var gaman að sjá hvernig fundurinn opnaði umræðuna og náði fólki saman. Þetta er vettvangur sem fólki finnst það vera velkomið á og margir sem hafa kannski áður reynt að fá inngöngu í samtökin voru mættir á fundinn og vilja ganga til liðs við samtökin núna, eins og þau eru í dag,“ segir Helga að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka