Útlit er fyrir að hitamet yfir vetrarmánuði gæti fallið nú um helgina vegna sérstæðra aðstæðna í veðurkerfum við Ísland.
Hæsti hiti sem mælst hefur í febrúar er 18,1 gráða á Dalatanga árið 1998, en hæsti hiti yfir vetrarmánuðina, desember, janúar og febrúar, mældist einnig á Dalatanga, 18,8 gráður árið 1992.
Í minnisblaði Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings hjá Veðurvaktinni, segir að fyrir sunnan landið verði háþrýstisvæði á austurleið sem upprunnið sé suður í höfum og beri með sér mjög milt loft. Samtímis fari grunn lægð til norðausturs meðfram Grænlandsströnd og saman beini veðurkerfin tvö mjög mildu lofti yfir landið.
Einar telur verulegar líkur á að hærri hitatölur geti mælst en áður, jafnvel yfir 19 stigum snemma á morgun.