Allt er þegar þrennt er?

Einungis rétt rúmlega helmingur þingmanna gaf upp afstöðu sína.
Einungis rétt rúmlega helmingur þingmanna gaf upp afstöðu sína. mbl.is/kort

Líkur eru á því að atkvæðagreiðsla, komi til hennar, um fyrirhugað frumvarp um afnám á einkasölu ÁTVR á áfengi verði tvísýn. Flutn­ings­menn frum­varps­ins koma úr fjór­um flokk­um; Sjálf­stæðis­flokki, Viðreisn, Pír­öt­um og Bjartri framtíð.

Þrátt fyrir að flutningsmenn frumvarpsins séu níu talsins úr fjórum flokkum og flokkarnir hafi 42 menn á þingi er ekki þar með sagt að áðurnefndir flokkar styðji frumvarpið. Allir flokkarnir virðast klofnir í afstöðu sinni en einhverjir þingmenn úr flutningsflokkum hafa sagst styðja frumvarpið, aðrir ekki og enn aðrir óákveðnir eða neita að gefa upp afstöðu sína.

Fleiri segja nei

Enginn þingmaður hinna þriggja flokkanna, Samfylkingar, Framsóknarflokks eða VG, sagðist ætla að styðja frumvarpið samkvæmt svari við fyrirspurn mbl.is. Allir þingmenn voru spurðir að því hver afstaða þeirra til fyrirhugaðs frumvarps væri. 10 þingmenn sögðust ætla að styðja það, 22 eru mótfallnir því, 12 vildu ekki gefa upp afstöðu sína og 19 svöruðu ekki.

Einungis fjórir ráðherrar svöruðu fyrirspurninni en þrír þeirra styðja frumvarpið og einn var óviss um afstöðu sína. 

Sjálfstæðisfólkið Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, Teitur Björn Einarsson, Vilhjálmur Árnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hildur Sverrisdóttir og Birgir Ármannsson svaraði játandi. Auk þeirra svaraði Píratinn Viktor Orri Valgarðsson játandi, en hann er varaþingmaður Gunnars Hrafns Jónssonar sem er í veikindaleyfi. Pawel Bartoszek og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmenn Viðreisnar, svöruðu sömuleiðis játandi.

Flutningsmenn frumvarpsins koma úr fjórum flokkum á Alþingi.
Flutningsmenn frumvarpsins koma úr fjórum flokkum á Alþingi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Framsóknarþingmennirnir Elsa Lára Arnardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Eygló Harðardóttir, Þórunn Egilsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir styðja frumvarpið ekki. Sama má segja um Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Kolbein Óttarsson Proppé, Steinunni Þóru Árnadóttur, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Steingrím J. Sigfússon og Andrés Inga Jónsson úr VG. Píratarnir Birgitta Jónsdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Eva Pandora Baldursdóttir og Smári McCarthy eru sömuleiðis mótfallin frumvarpinu, sem og Guðjón S. Brjánsson og Oddný Harðardóttir úr Samfylkinguni. Eini sjálfstæðismaðurinn sem svaraði neitandi er Ásmundur Friðriksson.

Nokkrir þingmenn sögðust ekki vilja gefa upp afstöðu sína eða að hún kæmi í ljós í þingsal. Það eru sjálfstæðisfólkið Vilhjálmur Bjarnason og Bryndís Haraldsdóttir og formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson. Svandís Svavarsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson úr VG svöruðu því til að afstaða þeirra kæmi í ljós í þingsalnum og sömu sögu er að segja um Píratana Halldóru Mogensen og Gunnar I. Guðmundsson, en Gunnar er varamaður Evu Pandoru sem er í fæðingarorlofi. Viðreisnarfólkið Jón Steindór Valdimarsson, Jóna Sólveig Einarsdóttir og Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra hafði ekki gert upp hug sinn. Nicole Leigh Mosty og Theodóra S. Þorsteinsdóttir úr Bjartri framtíð eru einnig óvissar.

Manndómsvígsla Heimdallar?

Framsóknarkonan Elsa Lára spyr hverra hagsmuna sé verið að gæta með þessu frumvarpi. „Hvaða hagsmuna verið sé að gæta? Allar umsagnir um málið eru á einn veg, að vara við þessu … nema þegar kemur að aðilum sem tengjast verslun og þjónustu.“

Samflokkskona Elsu Láru, Eygló Harðardóttir, tók í svipaðan streng: „Ég mun ekki styðja mál sem auðveldar aðgengi að áfengi. Tel ég margt brýnna, ekki síst gagnvart börnunum okkar.“

Píratinn Birgitta Jónsdóttir kallar frumvarpið „manndómsvígslu Heimdallar“ og segir ljóst að meirihluti þjóðarinnar sé ekki tilbúinn að fara þá leið sem tiltekin er í núverandi endurunnu áfengisfrumvarpi. „Því væri ráð að hvetja almenning til að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta eða að núverandi valdhafar sem sitja við völd með minnihluta atkvæða á bak við sig virði vilja meirihluta landsmanna.“

Munu Vínbúðirnar heyra fljótlega heyra sögunni til?
Munu Vínbúðirnar heyra fljótlega heyra sögunni til? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur J. Sigfússon segir að almennt birtist afstaða þingmanna til mála í nefndarálitum, umræðum og atkvæðagreiðslum og þeim beri að sjálfsögðu engin skylda til að upplýsa um hana fyrir fram eða með öðrum hætti frekar en þeir sjálfir kjósi. 

„En, hér er á ferð margendurflutt frumvarp og hefur versnað umtalsvert frá mínum sjónarhóli frá fyrri útgáfum. Mín afstaða hefur áður komið skýrt fram og er mér því ekkert að vanbúnaði að svara í þessu tilviki: Ég er algerlega andvígur málinu,“ sagði Steingrímur.

Uppistaðan byggð á eldri frumvörpum

Svipað frumvarp hefur komið til umræðu á Alþingi tvívegis áður en þá var það ekki afgreitt. Teitur Björn Einarsson, fyrsti flutningsmaður núverandi frumvarps, sagði í samtali við mbl.is á dögunum að uppistaða frumvarpsins væri byggð á eldri frumvörpum. Viðbót væri breytingar um áfengisauglýsingar.

Verði fyrirhugað frumvarp að lögum verður sala áfeng­is heim­iluð í sér­versl­un­um í sérrým­um inn­an versl­ana og áfengisaug­lýs­ing­ar inn­lendra aðila heim­ilaðar og leyfðar í inn­lend­um fjöl­miðlum.

Landlæknir mótfallinn fyrirhuguðu frumvarpi

Heilbrigðisstarfsmenn hafa lagst mjög gegn frumvarpinu, en þeir telja að aukið aðgengi leiði af sér aukna neyslu áfengis. Birg­ir Jak­obs­son land­lækn­ir sagði í viðtali við mbl.is að hann teldi að neysla áfengis myndi sérstaklega aukast hjá þeim hópum sem væru viðkvæmastir; yngra fólki og þeim sem þoldu ekki áfengi.

Land­lækn­ir seg­ir að fyr­ir­hugað frum­varp sé al­gjör­lega í and­stöðu við lýðheilsu­stefnu fyrr­ver­andi rík­is­stjórn­ar. „Raun­veru­lega er það í and­stöðu við það sem alþjóðasam­tök segja; að hafi maður ekki sleppt þessu frjálsu, í guðanna bæn­um gerið það ekki. Þetta skref verður aldrei tekið til baka og er óheilla­spor.

ÞIngmenn voru spurðir um afstöðu sína til fyrirhugaðs frumvarps um …
ÞIngmenn voru spurðir um afstöðu sína til fyrirhugaðs frumvarps um afnám á einkasölu ÁTVR á áfengi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert