Telur að gjaldtakan brjóti ekki gegn jafnræði íbúa

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í samgönguráðuneytinu er nú unnið að tillögum að endurbótum á vegakerfinu sem fjármagnaðar yrðu með gjaldtöku á vegum frá höfuðborgarsvæðinu. Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir í samtali við mbl.is að starfshópur vinni nú að því að skilgreina þessar þrjár leiðir, en í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um það hvort sérstök gjaldtaka á þeim geti orðið til þess að unnt verði að ráðast fyrr í stórtækar endurbætur á vegakerfinu.

Umræddar leiðir eru Reykjanesbraut frá Keflavíkurflugvelli og í gegnum Hafnarfjörð, Vesturlandsvegur upp í Borgarnes að Sundabraut meðtalinni og síðan Suðurlandsvegur austur fyrir Selfoss með nýrri brú yfir Ölfusá. „Ruðningsáhrifin af þessu yrðu síðan þau að við höfum það framlag sem kemur úr ríkissjóði á hverju ári til að fara í framkvæmdir á öðrum stöðum þar sem þörfin er mikil,“ segir Jón.

Þekktar aðferðir erlendis 

Spurður hvort gjaldtaka sem þessi brjóti ekki gegn jafnræði íbúa í landinu þar sem hún leggst sérstaklega á íbúa á suðvesturhorninu segir Jón svo ekki vera. „Við erum búin að vera með svona gjaldtöku í 18 ár upp í Hvalfjarðargöngum.“

Í Hvalfjarðargöngum getur fólk kosið að fara aðra leið án þess að greiða gjald fyrir, verður slíkt í boði á þessum leiðum?

„Já, það verður væntanlega líka hægt í þessum tilfellum. Ef gjaldtakan heldur áfram á Vesturlandi verður ein gjaldtaka áfram í göngin og fólk getur haldið áfram að keyra fjörðinn. Ef það verður gjaldtaka hér fyrir ofan bæinn getur fólk hugsanlega farið Þrengslin. Sunnan að getur fólk síðan farið Suðurstrandarveginn eða einhverjar slíkar leiðir,“ segir Jón.

Hann segir aðferðir sem þessar afar algengar erlendis sem lið í fjármögnun á uppbyggingu samgöngumannvirkja. „En þetta er allt í skoðun hjá okkur. Það verður ekki tekin nein ákvörðun fyrr en það verða komnar niðurstöður frá starfshópnum,“ segir Jón.

Ákveðin gjaldtaka á ferðaþjónustuna 

Spurður hvort ekki sé unnt að nýta skatta og gjaldtökur af bifreiðum til að fjármagna uppbyggingu í vegakerfinu segir Jón að það fari eftir því hvaða gjaldtöku verið sé að vitna í. „Ef horft er til þeirrar gjaldtöku sem er á eldsneyti þá er ákveðið samræmi í því hvað er að fara í samgöngumál og hvað kemur út úr þeirri skattlagningu ef virðisaukinn er ekki talinn með,“ segir Jón.

Þá bendir Jón á að í þessu felist einnig ákveðin gjaldtaka á ferðaþjónustuna þar sem þar eru aðilar sem myndu greiða hæsta gjaldið. „En auðvitað byggir svona gjaldtaka líka á því að þeir sem eru að fara mjög oft um svæðin borgi lægra gjald en hinir sem fara sjaldnar,“ segir Jón.

Að lokum leggur Jón áherslu á að þessi valkostur sé til umræðu og í skoðun en enn sé ekki búið að taka neinar ákvarðanir um framhaldið. „Ég hef engar hugmyndir enn um það hvernig þetta yrði nákvæmlega framkvæmt varðandi upphæðir og annað. Það er hluti af þessari vinnu sem fer fram núna að kortleggja umfangið og umferðina og sjá þá þannig hvernig þessi gjaldtaka yrði, hvað hún þyrfti að vera há og fleira,“ segir Jón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert