Bandarískur ferðamaður lést við Silfru á Þingvöllum í dag en hann hafði verið við snorkl í gjánni ásamt hópi erlendra ferðamanna undir leiðsögn leiðbeinanda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Við komu að bakkanum að afloknu sundinu missti Bandaríkjamaðurinn meðvitund. Var honum komið upp á bakkann og hófu leiðsögumenn endurlífgun með hjartastuðtæki og búnaði til súrefnisgjafar. Endurlífgun var haldið áfram þar til komið var með sjúklinginn með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Ekki liggur fyrir hver dánarorsök var.