Fjöldi ferðamanna ekki aðalatriði

Ferðamenn við Seljalandsfoss. Róbert Guðfinnson, athafnamaður á Siglufirði, segir að …
Ferðamenn við Seljalandsfoss. Róbert Guðfinnson, athafnamaður á Siglufirði, segir að líklega megi segja að í ferðaþjónustu hagi Íslendingar sér nú eins og í sjávarútvegi áður en kvótakerfið kom til sögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði, líkir ferðaþjónustu á Íslandi í dag við þá tíð þegar sjávarútvegurinn snerist mikið um að veiða sem mest, en menn gleymdu að tala um hvað yrði um hráefnið eftir að það kom í land. Þegar Íslendingar veiddu svo mikið að fiskistofnanir voru „keyrðir niður“. Róbert segir ekkert hafa breyst á þeim vettvangi fyrr en eftir að kvótakerfinu var komið á.

„Á þessum árum gerðum við ótrúlega lítil verðmæti úr því sem við vorum að veiða,“ sagði Róbert í erindi sem hann kallaði Hið heimska fjármagn – hjarðhegðun og skammtímahyggja, á fundi félaga viðskiptafræðinga- og hagfræðinga í menningarhúsinu Hofi á Akureyri í föstudag, um uppbyggingu nýrra áfangastaða.

Töpuðum á að veiða mikið

„Við sem vorum þátttakendur í sjávarútvegi munum þegar magnið skipti öllu máli,“ sagði Róbert og sagði mjög mikla peninga hafa tapast á því hve mikið var veitt. „Hér voru sífelldar gengisfellingar vegna þess að sjávarútvegurinn var alltaf á hausnum þó að það veiddist svona mikið! Það var af því við bjuggum til allt of lítil verðmæti úr því sem við veiddum. Þegar kvótakerfið var búið að takmarka veiðarnar fóru menn að hugsa um hvern einasta fisk; hvernig væri hægt að búa til mest úr aflanum sem veiddist.“

Hann segist stoltur af því að hafa tekið þátt í breytingum á íslenskum sjávarútvegi.

„Við fórum að auglýsa okkur um allan heim á forsendum náttúrunnar.“ Vakin var athygli á hreinum sjónum og náttúru landsins.

Róbert hefur staðið að gríðarlegri uppbyggingu í ferðaþjónustu í sínum gamla heimabæ, Siglufirði. Hann efnaðist á sjávarútvegi í útlöndum og ákvað í kjölfarið að flytja heim og fara í þessa uppbyggingu.

„Við höfum verið að bardúsa í ferðaiðnaði án þess að vera sérfræðingar en reynum að byggja á reynslu sem við höfum fengið í íslenskum sjávarútvegi,“ sagði hann hógvær í gær. Hann segir nauðsynlegt að leggja fyrst og fremst áherslu á gæði og að hugsa til langs tíma. „Það verður að hafa trú á að gæði og þjónustu eigi að vera sem mest en fórnarkostnaðurinn er mikill. Þetta er ekki eins og að kaupa trillu, fiska, selja á markaði, fá borgað daginn eftir og róa svo aftur. Í ferðaiðnaði verða menn að taka á sig hundruð milljóna í fórnarkostnað til að byggja upp til framtíðar.“ Slíkt hefði til dæmis verið nauðsynlegt á Siglufirði, til að byggja upp samfélag sem hefði átt erfitt uppdráttar í áratugi.

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði segir nauðsynlegt að leggja fyrst …
Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði segir nauðsynlegt að leggja fyrst og fremst áherslu á gæði og að hugsa til langs tíma. Ómar Óskarsson

Róbert kallaði fjármagn skrýtið fyrirbæri. Hjarðhegðunin væri alls staðar eins. Peningar eltu peninga og óþolinmæði að fá fjárfestinguna borgaða til baka væri mikil. „Á meðan við sjáum annars staðar, í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, að menn eru að fá 1, 2, 3% ávöxtun á peningana, höldum við að hér geti ávöxtunin verið uppi í skýjunum. Þetta er misskilningur. Við erum í alþjóðlegri samkeppni og verðum að hugsa raunhæft og af skynsemi. Og það verður að hugsa til langs tíma.“

Hann bendir á að líklega megi segja að í ferðaþjónustu hagi Íslendingar sér nú eins og í sjávarútvegi áður en kvótakerfið kom til sögunnar. „Við vöðum áfram. Veiðum og veiðum og veiðum. Ef útgerðarmenn myndu hegða sér eins og ferðaþjónustan í dag væru nánast allir togararnir við suðurströndina og skröpuðu þar botninn.

Róbert sagði enga tilviljun að flestir ferðamann segðust koma til Íslands til að skoða náttúruna „en náttúra Íslands er ekki bara gullni hringurinn, Suðurland og Esjan“.

Að nýta allt landið

Róbert nefndi að við uppstokkun á sjávarútveginum fór mikið fjármagn úr byggðunum „og í dag er uppistaðan af fjármagni í byggðunum bundið í sjávarútvegi eða landbúnaði. Ótrúlega lítið fjármagn er í hinum dreifðu byggðum sem hægt er að nota í uppbyggingu og nýsköpun í ferðaiðnaði.“ Þetta takmarki það sem hægt sé að gera, og „ef við ætlum að nýta allt landið sem auðlind eins og við gerðum í sjávarútvegi eigum við mikið verk framundan. Það hlýtur að vera takmark að landið allt sé nýtt, skynsamlega og á endurnýjanlegan hátt. Að ekki verði farið með það eins og við fórum með fiskistofnana okkar.“

Aðalmálið sé sem sagt ekki hve margir ferðamenn komi til landsins, heldur að landið allt sé nýtt og að sem mest fáist út úr hverjum og einum. „Þið trúið því ekki hvað fer í taugarnar á mér þegar menn rífast um það hvor flytur fleiri farþega, Icelandair eða WOW! Þetta minnir á skipstjórana á bryggjunni í gamla daga þegar talað var um hver hefði veitt mest.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka