Samninganefndir sjómanna hittast í húsi Alþýðusambands Íslands klukkan 13 í dag.
Samtök innan sjómannasambandsins munu einnig funda bæði í dag og næstu daga.
„Næstu dagar koma til með að skera úr um hvernig þetta fer. Það verður ekki í dag en auðvitað eru menn að reyna að finna lausnir og leiðir. Við ætlum að reyna það í dag, hvort sem það eru aðrir fletir á málum eða ekki,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins.
„Það er kannski búið að tala um allt sem hægt er að tala um en maður veit aldrei.“
Valmundur vill ekki meina að einhver ein ný leið verði rædd í dag. „Það er engin ein leið neins staðar, þá væri löngu búið að fara hana. Ég ætla að fá menn til að hugsa aðeins betur um málin og fá fleiri saman, þá kannski kemur eitthvað út úr því.“
Síðast var fundað hjá ríkissáttasemjara síðastliðinn fimmtudag. Enginn fundur hefur verið fyrirhugaður þar, að sögn Valmundar.
„Það hefur ekkert verið boðað til hans og engin ástæða til þess. Það er ekkert að ske.“