Að óbreyttu stefnir ekki í að Íslands standi við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til ársins 2030 um losun á gróðurhúsalofttegundum. Spáð er 53-99% aukningu í losun frá 1990 til ársins 2030, en ef tekið er mið af kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu er aukningin um 33-79%.
Aukning losunar er mest í stóriðju. Þetta er niðurstaða Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem skilaði í dag greiningarskýrslu sinni um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum frá 2010 miðaði að því að útstreymi án stóriðju og án bindingar með landgræðslu og skógrækt yrði 9% minna árið 2020 en árið 1990 og 32% minna árið 2020 án stóriðju en með bindingu. Nokkuð vantar á að þessi markmið náist, samkvæmt Hagfræðistofnun. Útstreymi ársins 2014 án stóriðju var 6% meira en útstreymi ársins 1990, en 10% minna ef binding var tekin með.
Segir í skýrslunni að ljóst sé að frekari aðgerða sé þörf til dæmis í landbúnaði sem og í bindingu kolefnis með landgræðslu, skógrækt eða endurheimt votlendis til að ná takmarki aðgerðaáætlunarinnar frá 2010.
Eftir að Ísland samþykkti Parísarsamninginn þótti ástæða til að ráðast í endurskoðun á greiningu frá árinu 2009 um möguleika á nettólosun gróðurhúsalofttegunda og var Hagfræðistofnun fengin til verksins. Átti stofnunin að rýna losunarspá fyrir Ísland til 2020 og 2030, skoða fyrri markmið um losun og hvernig hafi tekist að ná þeim, greina hagkvæmustu leiðir til þess að ná núverandi markmiðum og meta hvort Ísland ætti að vera áfram í samfloti með ríkjum Evrópusambandsins í viðskiptakerfi með losunarheimildir. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor ritstýrði skýrslunni.
Skýrsla Hagfræðistofnunar bendir líka á margvíslega möguleika til að draga úr losun og voru 30 mótvægisaðgerðir greindar með tilliti til kostnaðar og ábata. „Sumir kostir eru dýrir, aðrir kosta tiltölulega lítið og sumir skila jafnvel fjárhagslegum nettóábata. Skýrslan greinir tæknilega möguleika á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu, en tekur fram margt hafi áhrif á hvort samdráttur í losun verði í raun, s.s. stjórnvaldsákvarðanir, olíuverð og fleiri þættir,“ segir á vef ráðuneytisins.
Í skýrslunni segir að niðurstöður sýni að fjárfesting í sparneytnari bifreiðum hafi í för með sér hreinan ábata (neikvæðan nettókostnað). Auk þessa þáttar séu sex önnur dæmi sem geti samtals leitt til samdráttar í útstreymi sem nemur rúmum 320 þúsund tonnum CO2-ígilda. „Fjölmargar aðgerðir eru auk þessa fremur hagfelldar, svo sem binding CO2 með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis, en aðrar kosta meira. Athygli vekur hve miklu munar á kostnaði aðgerða innan sama geira, svo sem innan samgangna, þar sem ódýrustu kostirnir leiða af sér nettóábata (t.d. sparneytnari bifreiðar). Langdýrustu kostirnir á hvert tonn af samdrætti af gróðurhúsalofttegundum eru notkun vetnis í samgöngum og léttlest á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í skýrslunni.