Margeir Ingólfsson, hrossabóndi á Brú í Bláskógarbyggð, hefur komið upp bílaplani og gerði með nokkrum hestum á landi sínu, sem ferðmenn geta myndað og klappað í góðu tómi án þess að valda hrossaræktinni tjóni eða skapa hættu á umferðarslysum. Hann segir nýju aðstöðuna fá góðar viðtökur.
Það vakti athygli í lok síðasta árs þegar Margeir setti skilti í hrossagerði sem hann er með við veginn þar sem fram kom að bannað væri að gefa hestunum. Margeir sagði þá í samtali við mbl.is að það skapaði hættu þegar ferðmenn, hvort sem eru á bílaleigubílum eða rútum, stoppuðu í stórum hópum á þjóðveginum til að gefa hestunum. Eins gætu matargjafir í svo miklu magni valdið hestunum heilsutjóni.
„Meltingarvegurinn í þeim einfaldlega ræður ekki við að heilu rúturnar með nokkur hundruð manns á dag séu að gefa þeim brauð, sagði Margeir þá. „Þetta getur verið lífshættulegt fyrir hestana.“
Með nýju aðstöðunni hefur hins vegar verulega dregið úr því að bílar stoppi á veginum. Hestarnir sem eru í því gerði fá sömuleiðis meiri frið, en hrossinn sem ferðamenn fá að klappa eru skapgóðir eldri hestar sem þola vel athyglina.
Margeir sendi tölvupóst á tugi ferðaþjónustufyrirtækja sem auglýsa ferðir um Gullna hringinn. „Ég lét þá vita að þeim væri velkomið að stoppa þarna, taka myndir og klappa hestunum, en að það mætti ekki taka með sér brauð og gefa hestunum.“ Hann kveðst ekki vita til annars en að fóðurbannið sé virt af flestum, en bætir við að hann muni mögulega í framtíðinni bjóða upp á sjálfssölu á einhverskonar hestafóðri til að geta stýrt því hvað þeim er gefið mikið.
Viðbrögð við framtakinu hafa verið góð. „Það er töluvert stoppað þarna,“ segir Margeir. „Í stað þess að stoppa í vegkantinum þá fara menn inn fyrir girðingu og eru þar með komnir úr traffíkinni. Þetta er eins þægilegt og öruggt og verið getur.“
Fyrirtækin hafa líka mörg hver þakkað honum fyrir. Bílstjórarnir eru líka mjög ánægðir, því það var ekki þeirra vilji að vera að stoppa úti á miðjum vegi og valda hættu,“ segir Margeir. Fararstjórarnir séu sömuleiðis sáttir og þá þakki ferðamenn vel fyrir að fá að hitta hestana þegar hann hittir á þá.
Eitthvað er þó enn um að ferðamenn á bílaleigubílum stoppi á veginum, en Margeir kveðst merkja að um leið og rútur stoppa á bílaplaninu þá fylgi bílaleigubílarnir í kjölfarið. „Það kemur enn fyrir að menn stoppa á veginum, en það hefur minnkað mikið. Nágrannar mínir hafa líka haft orð á því að þeir finni líka mun og þetta hafi létt á ágangi í þeirra hesta,“ segir hann.
„Eins og ég sagði í póstinum sem ég sendi ferðaþjónustufyrirtækjunum, þá get ég með þessu komið í veg fyrir að restin af hestunum verði fyrir átroðningi og hins vegar get ég komið í veg fyrir að þurfa fyrr en síðar að horfa upp á stórslys út um gluggann hjá mér. Þetta er mitt innlegg í það að reyna að bæta umferðaröryggi næst mér.“