Stofnun múslima á Íslandi og tveir stjórnarmenn samtakanna, þeir Karim Askari og Hussein Aldaoudi, hafa höfðað mál gegn 365 og RÚV, vegna frétta sem birtust síðasta sumar þar sem stofnunin var tengd Osama Krayem, 23 ára sænskum ríkisborgara sem grunaður er um aðild að bæði hryðjuverkaárásunum í París og Brussel, en Krayem starfaði um tíma fyrir Alrisalah, móðurfélag Stofnunar múslima á Íslandi.
Krafan hljómar upp á að ummæli og fyrirsagnir frétta sem birtar voru á vefmiðlunum visir.is og ruv.is verði dæmd dauð og ómerk, en auk þess fara þeir Karim og Hussein fram á tvær milljónir króna í miskabætur.
Stefnan er höfðuð á hendur 365 og RÚV, útgefanda 365, fréttastjóra RÚV, blaðamönnunum sem skrifuðu fréttina og Salmann Tamimi, formanni Félags múslima á Íslandi, sem tjáði sig um málið við Vísi.
Fyrirsögn fréttar Vísis „Þarf að bregðast við tengslum við hryðjuverkasamtök“ var bein tilvísun í Salmann, sem höfðað er mál gegn vegna orða sinna, en einnig var haft eftir honum að hann vilji að stjórnvöld á Íslandi grípi til aðgerða vegna tengsla móðurfélags Stofnunar múslima á Íslandi við hryðjuverkasamtök. Hann vilji ekki að félag sem hafi einhver tengsl við ofstækismenn sé starfandi hérna.
Fyrirsögn RÚV var „Árásarmaður tengdur Stofnun múslima á Íslandi“.
„Rauði þráðurinn í gegnum allt er að það er verið að tengja Stofnun múslima við hryðjuverkasamtök í gegnum það að það hafi verið starfsmaður hjá Alrisalah-stofnuninni í Svíþjóð sem síðan er grunaður um sprengjuárásina í Brussel,“ segir Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Stofnunar múslima á Íslandi og þeirra Karims og Hussein. „Þetta er tenging sem gengur ekki upp að lögum,“ bætir hann við.
Frávísunarkrafa 365 gegn kærunni verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag, en RÚV gerði enga slíka kröfu og viðurkenndi RÚV í sumar að fréttin hafi verið röng efnislega hvað varðar tengingu hins meinta árásarmanns við stefnandann. Stefndu töldu það ekki nægjanlegt, þar sem leiðréttingin hafi gengið of skammt, enda hafi hún ekki verið leiðrétt nema að þeim hluta að Stofnun múslima sé ekki rekin af Alrisalah.