Tveir menn björguðust norðaustan af Ólafsvík nú um klukkan sex, þegar bátur þeirra, Hjördís HU, tók að leka. Björgunarbáturinn Björg er kominn að bátnum og búið er að taka mennina tvo um borð í Björgina.
„Þetta leit illa út áðan. Það flaut bara yfir hann og hann var við það að fara niður bara,“ segir Eggert Bjarnason, skipstjóri á Björginni, í samtali við mbl.is. „En við tókum tvo um borð í Björgina, við þorðum ekki öðru, hann var við það að fara niður, báturinn.“
Björgin er nú á leið til hafnar, með Hjördísi í togi, en hún marar í kafi.
„Þetta lítur allt betur út núna,“ segir Eggert. „Við erum komnir með þá um borð.“