Betur fór en á horfðist þegar bátur á Breiðafirði fór að taka inn á sig sjó á fimmta tímanum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni, en mbl.is greindi fyrst frá atvikinu.
Segir í tilkynningunni að nokkrir bátar hafi verið í grennd við bátinn sem var í vandræðum, Hjördísi HU-16, og að reynt hafi verið að kalla í þá á rás 16, sem er neyðarrás sjómanna.
Þá hafi aðeins einn svarað, í fimm sjómílna fjarlægð frá Hjördísi. Því var reynt að kalla í gegnum vinnurás 11 í báta sem voru nær, en þá svaraði enginn.
Var um leið ákveðið að kalla út Björgina, björgunarskip Landsbjargar á Rifi.
„Skömmu síðar tilkynnti skipstjórinn á bátnum að hann væri búinn að rétta sig af og sjór gengi ekki lengur inn. Svo virðist sem hann hafi verið ofhlaðinn en þegar skorið var á línuna fór hann að rétta sig af,“ segir í tilkynningunni.
„Annar bátur var þá á leiðinni til hans. Þrátt fyrir það var ákveðið að senda Björgu til aðstoðar. Þegar björgunarskipið nálgaðist bátinn um sexleytið kom í ljós að sjór var þá farinn að ganga yfir lunninguna á honum og útlitið ekki gott. Því var ákveðið að skipverjarnir færu um borð í Björgu.
Enginn sjór var þó kominn í bátinn og þegar veiðarfærunum hafði verið hent í sjóinn til að létta hann enn frekar rétti hann sig betur við. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, var á leið vestur á firði til æfinga síðdegis en lagði lykkju á leið sína þegar fréttist af því að báturinn ætti í vanda.“
Björgin og Hjördís eru, þegar þetta er skrifað, komnar langleiðina að höfninni á Rifi. En þótt hér hafi farið betur en á horfðist segir í tilkynningunni að athygli veki að bátar á svæðinu hafi ekki verið að hlusta á neyðarrás sjómanna.
„Þessi rás er eitt af mikilvægustu öryggistækjum sjófarenda en ef virk hlustun á hana er ekki fyrir hendi veitir hún falskt öryggi. Afleiðingarnar af því geta reynst mjög alvarlegar.“