UNICEF á Íslandi, Barnaheill og umboðsmaður barna gagnrýna harðlega frumvarp um að einkasala ríkisins á smásölu áfengis verði lögð af og að heimilt verði að auglýsa áfengi hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu þeirra.
Segir þar að skorað sé á þingmenn að „virða mannréttindi barna, setja hagsmuni þeirra í forgang og hafna frumvarpinu“.
Þá segjast þau telja frumvarpið ganga þvert á hagsmuni barna og brjóta gegn réttindum þeirra.
„Börn eiga rétt á þeirri vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Samkvæmt lögum er opinberum aðilum skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal á sviði löggjafar, til þess að vernda börn gegn skaðlegum áhrifum áfengis,“ segir í tilkynningunni.
„Við hvetjum þingmenn til þess að kynna sér vel rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins. Þar kemur skýrt fram að afnám einkasölu ÁTVR og aukinn sýnileiki áfengis í auglýsingum, mun leiða til aukinnar áfengisneyslu, bæði meðal unglinga og fullorðinna.
Er því ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu, þroska og öryggi barna.
Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er hluti af íslenskum lögum, ber þingmönnum að setja hagsmuni barna í forgang þegar þeir taka ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en önnur sjónarmið. Ef frumvarpið verður samþykkt brýtur það því gegn einni af grunnstoðum Barnasáttmálans.
Við skorum á þingmenn að virða mannréttindi barna, setja hagsmuni þeirra í forgang og hafna frumvarpinu.“
Undir áskorunina skrifa svo þau Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Save the Children á Íslandi, og Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.